laugardagur, 26. júlí 2008

Allt að gerast í Philly!

Já það er mikið búið að brasa síðustu vikurnar og höfum við varla haft tíma í blogg eða að setja inn myndir á flickrið en það kemur allt saman.

Við fórum á frábæra tónleika með Coldplay í gær og erum varla komin á jörðina ennþá! Það var brjáluð stemming en Wachovia Center var pökkuð þúsundum manna.

Þeir spiluðu nýju plötuna sem við erum búin að hlusta á síðasta mánuðinn og er alveg frábær plata. Svo komu nokkur gömul og hef ég aldrei heyrt jafn miklar undirtekir hjá áhorfendum þegar þeir tóku Fix you en gjörsamlega allir sungu með og höllin titraði!
Chris Martin var algjörlega magnaður, þvílík orka í manninum, hljóp, dansaði (ef dans mætti kalla) og trylltist á píanóinu inn á milli allan tímann.
Svo var mjög flott þegar öll hljómsveitin hljóp í gegnum áhorfendur og fór alveg aftast í salinn þar sem var míkrafónn og tóku eitt lag þar innan um áhorfendur sem ætluðu alveg að ganga af göflunum.
Já þetta var þvílík upplifun og þið getið upplifað smá með því að kíkja á þennan link:
http://www.coldplay.com/newsdetail.php?id=83
En þar er brot af einu lagi þar sem allir sungu hástöfum með.

Hér er svo myndband af Fix You, nær ekki alveg söngnum hjá áhorfendunum en það er brill að sjá Chris Martins dansa!



Jæja nóg í bili

Kveðja

Hlynur og Erna Sif

sunnudagur, 20. júlí 2008

Stuð og fjör í Philly

Hæ allir saman.

Hér er búið að vera mikið stuð og fjör síðustu daga. Þorri hefur leikið á alls oddi og segir reglulega við mann: Ertu að meina þetta! og hlær!
Það er búið að skoða mikið hér í kring og t.d. í gær fórum við í sveitina að hitta Amish fólkið sem var mjög skemmtilegt. Fórum í hestakerruferð, versluðum á skemmtilegum markaði í Intercourse PA, skoðuðum yfirbyggða brú og keyrðum svo um litla sveitavegi þar sem maður sá fólkið vinnandi á ökrunum með múlasna á plógi. Svo var ótrúlega mikið af maískorni á ökrunum en þeir ná víst að uppskera 5 sinnum á ári.

Hér er Þorri á ströndinni í Cape May í New Jersey


Annars höfum við haft nóg að gera, farið á brasilískt steikhús, skoðað Chanticleer (uppáhalds garðinn okkar), farið í King of Prussia (risamoll), keyrt um Chestnut Hill (hverfið sem ég vinn í), farið á ströndina og skoðað borgina vel.


Í dag fórum við í Wissahickon Creek í smá gönguferð í hitanum og svo kíktum við aðeins í vinnuna til mín.



Svo hefur verið voða kósí að hafa Þorra hjá okkur en hér eru Erna og Þorri að lesa fyrir háttinn.



Kveðja í bili

Hlynur og Erna Sif og litla fjölskyldan

föstudagur, 11. júlí 2008

Loksins smá blogg

Hæ Ísland!

Þá kemur loksins smá blogg hérna frá okkur. Það er búið að vera mikið að gera síðustu viku eða svo.
Það var mikil upplifun í indverska brúðkaupinu sem við vorum í um síðustu helgi.
Við flugum til Columbus í Ohio á fimmtudaginn og fórum beint á glæsilegasta hótel staðarins, The Renaissance. Erna fór beint í svaka gleði með Rainu og fleiri stelpum þar sem var verið að mála Henna á brúðina og fleiri sem vildu, Erna fékk sér smá, voðaflott:) Ég rölti svo um bæinn og sá skrúðgöngu í tilefni 4.júlí þó það væri bara 3.júlí. Það var mikið um dýrðir í þessari skrúðgöngu eins og t.d. Félag pípara í Columbus og svo fræg Idol stjarna, Renaldo Lapuz (athugið Youtube) en mest gaman var að sjá tvær risastórar lúðrasveitir sem spiluðu poppaða útgáfu af þjóðsöngnum. Svo komu nokkrar orustuþotur í lágflugi yfir mannfjöldann sem var mjög gaman að sjá. Kvöldið endaði svo með flugeldasýningu sem við fórum saman á sem var alveg mögnuð, 25 mínútur og held ég bara betri en sumar íslensku sýningarnar vegna þess að það var meira í gangi á hverjum tíma. Frekar fyndið að einhver var með útvarp og þjóðsöngurinn var spilaður við mikil viðbrögð og svo chantaði hópurinn U S A heillengi. Sé ekki Íslendingana fyrir mér í þessum ham...

Á föstudaginn fór Erna svo í sitt fyrsta Bridal Shower og ég rölti með nokkrum brúðkaupsgestum í German Village þar sem við fengum okkur frábæran brunch. Um kvöldið var svo haldið á hótel rétt fyrir utan borgina í indverska Garba dansveislu. Þar var boðið upp á indverskan mat, missterkan og svo var dansað í þrjá klukkutíma í hringi og með prik undir dynjandi indverskri tónlist. Það var mikið um litríkan klæðnað (sarí) og allir tóku þátt í dansinum, ungir sem aldnir og Erna og Hlynur líka. Stóðum alveg út úr í hópnum en náðum bara að dansa ansi mikið.

Á laugardaginn bauð fjölskylda brúðarinnar í veislu á Buca di Beppo sem er ítalskur staður og eftir það fórum við í partý sem Darshan hélt fyrir vini sína.

Giftingin var svo á sunnudeginum í sveitaklúbbi utan við borgina. Hún byrjaði með klukkutíma af dansi og brúðguminn kom á hvítum hesti til að hitta foreldra brúðarinnar sem á að vera hefðbundið í Indlandi nema þar er fíll notaður. Þetta var allt saman mjög hefðbundið og svo var komið að athöfninni sem fór fram á sanskrít en var að mestu leiti þýdd á ensku. Athöfnin var mjög falleg og mikið af siðunum var öðruvísi fyrir okkur.
Eftir athöfnina var lunch og svo höfðum við smá tíma til að slappa af áður en veislan hófst en hún var haldin á hótelinu okkar. Veislan var mjög skemmtileg, góður matur og mikið dansað. Erum orðnir sérfræðingar í indverskum dansi eftir þetta!

Já mikil upplifun og frábært að fá að vera partur af þessu.

Annars hætti stuðið ekkert hjá okkur því Una Björk, Þröstur og Þorri komu á þriðjudaginn sem er frábært og svo gaman að hafa þau í heimsókn.

miðvikudagur, 2. júlí 2008

Stutt vinnuvika og gleði framundan

Jæja þá er stutt vinnuvika búin og á morgun fljúgum við til Columbus, Ohio í fjögurra daga brúðkaup hjá Darshan og Rainu. Þetta verður ábyggilega mikil upplifun og við vitum eiginlega ekkert við hverju við eigum að búast. Það sem við vitum er að það verður hvítur hestur fyrir brúðgumann, Henna málning, indverskur dans og svo er væntanlega nóg af indverskum mat.

Svo getum við varla beðið eftir Unu Björk, Þresti og Þorra sem koma hingað næsta þriðjudag. Það verður kátt í litlu Ikea íbúðinni okkar næstu vikurnar.

Annars er lítið að frétta svo sem. Vinnan gengur sinn vanagang nema að við höfum varla undan að vökva í þurrkinum hérna. Það er varla búið að rigna hérna nema smá skúrir öðru hverju í nokkrar vikur og svo er hitastigið frekar stöðugt um 30°C. Sumir garðarnir eru með sjálfvirkri vökvun en við erum með mikið af kerjum með sumarblómum í og það þarf að vökva þau mikið.

Það verður áhugavert að upplifa 4.júlí hérna í Bandaríkjunum. Auðvitað verðum við ekki hérna í Philly þar sem þetta allt byrjaði hérna seytjánhundruðogsúrkál en við sjáum væntanlega einhvern gleðskap og flugelda í Columbus.

Biðjum svo að heilsa Úlfi Ægi sem verður tveggja ára þann 4 júlí.
Til hamingju með afmælið Úlfur:)

Kveðja

Hlynski og Ernski