mánudagur, 24. nóvember 2008

Pökkun og þrif

Nú er bara verið að pakka niður og þrífa íbúðina, ganga frá öllum málum og undirbúa sig fyrir heimkomu.

Gærdagurinn fór semsagt mestallur í þrif, gríðarlega skemmtilegt!
EFtir mikla vinnu ákváðum við að enda á steikhúsi, Capital Grill, og fegnum okkur síðustu steikina hér í Ameríkunni, alveg eðalgóð steik (er einhver að blóta mér hljóðlega núna...)

Í dag er ég búinn að hanga í símanum að segja upp hinum ýmsu hlutum eins og símanum, cable tv og rafmagninu. Það tók mig klukkutíma að segja upp símanum en í byrjun lenti ég á sjálfvirkum símsvara sem maður þarf að tala við. Símsvarinn vildi endilega vita af hverju við værum að segja upp þjónustunni. Ég sagði náttúrulega að við værum að flytja og þá vildi hann vita í hvaða fylki við værum að flytja. Ég sagði bara Ísland og þá hélt símsvarinn að við værum að flytja til Utah. Á endanum var ég settur á bið í hálftíma til þess að tala við alvöru manneskju og þá fóru hjólin að rúlla.

Við erum að vinna í að senda dótið okkar heim og svo er bara New York yfir Thanksgiving.

Hlökkum svo til að koma heim á laugardaginn og hitta ykkur öll...

Kveðja

Hlynur og Erna Sif

mánudagur, 17. nóvember 2008

Fréttir frá Philly!



Jæja þá er farið að líða að lokum dvalarinnar okkar hérna í Philadelphiu.
Á miðvikudaginn síðasta var haldið kveðjupartý fyrir mig í vinnunni og hefur ekki verið haldið partý í fyrirtækinu fyrir starfsmann í mörg ár.
Það var boðið upp á bjór og hoagies (phillysub) og skemmtum við okkur vel fram á kvöld. Hér er ég með Joe, eiganda fyrirtækisins.



Það er búin að vera aðeins meiri rigning undanfarna daga heldur en við eigum að venjast hérna og svo er farið að kólna svoldið. En það er bara ágætisundirbúningur fyrir íslenskt veðurfar sem er framundan hjá okkur eftir aðeins 12 daga! Já niðurtalningin er hafin, byrjuð að fara í gegnum dótið okkar og komin með kassa heim fyrir það sem ætlum að senda (ótrúlegt hvað maður safnar miklu dóti á einu ári...)

En já, allt að gerast í Philly semsagt, Erna fer á Madonnutónleika á fimmtudaginn, svo er bara að pakka og þrífa um helgina og skilum íbúðinni af okkur á miðvikudagsmorgun í næstu viku. Svo New York í 2 nætur og halló Ísland:)

Kveðja

Hlynur og Erna Sif

mánudagur, 10. nóvember 2008

Hæ allir saman!

Hér er allt í góðu standi og helgin var skemmtileg hjá okkur.
Á föstudaginn fórum við með Þórarni og Þór á New Deck Tavern og fengum okkur góðan mat og bjór.
Á laugardaginn var rigning og við skelltum okkur í mollið og gerðum jólainnkaup. Kláruðum ekki allt en komumst ansi langt með jólagjafir ofl.

Á sunnudaginn fórum við svo í sunnudagsbíltúr með Útlögunum eins og við köllum okkur (við, Þórarinn og Þór). Skelltum okkur í Tinicum í fugla- og náttúruskoðun. Fórum svo í Bartram´s Garden sem er einn elsti grasagarður í Bandaríkjunum.
Enduðum svo á Reading Terminal Market þar sem við fengum alvöru kalkúnamáltíð.

Í gærkvöldi komu svo Geir og Valla frá Princeton í mat og spjall svo sunnudagurinn var ansi fjörugur.

Annars gengur bara vinnan fyrir sig eins og venjulega en það er mikið að gera hjá Ernu þessa dagana enda er hún að skila inn nokkrum greinum til birtinga á næstunni og klára hluti fyrir heimkomu.

Biðjum að heilsa í bili

Kveðja

Hlynur og Erna Sif

mánudagur, 3. nóvember 2008

Phillies, Delaware Water Gap og kosningar..

Góðan daginn gott fólk!

Já Phillies hafnarboltalið borgarinnar vann meistaratitil í síðustu viku og borgin gekk af göflunum í kjölfarið. Það var skrúðganga á föstudaginn þar sem mættu 2,5 milljón manna og hylltu liðið. Því miður komumst við ekki enda hefði þetta verið einum of mikið af fólki fyrir okkur.

Við skruppum til Chestnut Hill með Þórarni og Þór á laugardaginn, gengum í Wissahickon Creek og fengum okkur að borða. Eftir það kíktum við heim til Þórarins, hofðum á Spaugstofuna og spjölluðum fram á kvöld.

Í gær fórum við með útivistarklúbbi úr háskólanum í gönguferð í Delaware Water Gap. Þetta er ótrúlega fallegur staður en svolítið sorglegt að þarna fer hraðbraut, I-80, beint í gegn um skarðið. Við keyrðum frá hraðbrautinni og gengum í ótrúlega fallegri náttúru upp að vatni á toppi fjallsins.

Hér erum við með Rainu við Sunfish Pond



Fallegir haustlitir við Sunfish Pond



Á morgun eru svo loksins kosningar hér í landi. Ég get varla beðið eftir að þetta verði búið en það er allt að verða vitlaust hér yfir þessu og spennan mikil. Við ætlum að skreppa til vina okkar og horfa á kosningasjónvarp, stuð og fjör.

Jæja nóg í bili

Kveðja

Hlynur og Erna sif

þriðjudagur, 28. október 2008

Rigning og kuldi

Við erum bara búin að gleyma því að það getur verið kalt og rigning...
Haustið er greinilega komið en það er leiðindaveður að ganga yfir í dag. Það var mikil spenna í borginni í gær en Phillies eru að spila í úrslitum hafnarboltans gegn Tampa Rays. Það lið sem vinnur fjóra leiki af sjö vinnur "The World Series"! Já kaninn er ekki með neina minnimáttarkennd, þeir kalla úrslitakeppni innan Bandaríkjanna "World Series"! Anyways þá var leikur í gær og Phillies hefðu getað klárað þetta með fjórða sigrinum en það þurfti að aflýsa leiknum vegna rigningar. Þá er bara að vona að þeir klári þetta annað kvöld!

Hér er ein góð haustlitamynd frá Hawk Mountain:



Það er aðeins að breytast vinnan en nú erum við að klippa niður fjölæringa, skipta út í kerjum, setja niður lauka og planta stjúpum fyrir veturinn.

Við fórum í afmæli til Rainu á laugardagskvöldið en við fórum út að borða á kúbverskan veitingastað. Maturinn var nú ekkert sérstakur en við erum ekki miklir aðdáendur kúbverkskrar matarmenningar eftir að hafa verið þar um árið. Eftir það kíktum við aðeins út á lífið. Það er fyndið að við hittum Rainu og Darshan nákvæmlega fyrir ári síðan á afmælinu hennar og þau eru orðin mjög góðir vinir okkar.


Á sunnudeginum fórum við með Þórarni leiðbeinanda Ernu og Þór lífeðlisfræðingi sem er í sabbatical hérna hjá UPenn, í sunnudagsbíltúr til Gettysburg. Þar var mikill bardagi milli Suðurríkjanna og Norðurríkjanna 1-3 júlí 1863. Það var mjög dramatískt að sjá þennan stað þar sem tugþúsundir Ameríkana börðust. Þarna er allt hlaðið í minninmerkjum og maður sér völlinn ansi vel fyrir sér og hvernig herfræðin skipti miklu máli þarna.

Hér eru Erna, Þór og Þórarinn á röltinu innan um minnismerkin:



Við fengum mjög fallegt haustveður og þetta var bara mjög skemmtilegur sunnudagsbíltúr!

Hér eru Íslendingarnir sem eru staddir í Philly þessa dagana:




Á sunnudaginn næsta förum við svo til Delaware Water Gap í göngu með útivistarklúbbi háskólans. Vonandi verða haustlitirnir ennþá í gangi.

Jæja nóg í bili

Bestu kveðjur frá Philly

Hlynur og Erna Sif

sunnudagur, 19. október 2008

Vikurnar fljúga hjá þessa dagana

Hæ allir saman!

Já tíminn líður hratt hjá okkur þessa dagana. Í gær skruppum við með Rainu og Darshan í göngu í Susquehanna State Park í Maryland. Veðrið var ótrúlega fallegt og haustlitirnir að ná hámarki. Gangan var skemmtileg blanda af skógi og stundum með fallegt útsýni yfir Susquehanna ánna rétt áður en hún endar í Chesapeak flóann. Frábær ganga í skemmtilegum félagsskap.



Dagurinn í dag var letidagur. Við vorum hálfan daginn á Penn bóksölunni að lesa bækur og svo fórum við í verslunarferð fyrir vikuna.

Ég var svo tilraunadýr hjá Ernu þegar hún var að æfa sig að mæla blóðþrýsting í ósæð eða sem næst hjartanu, spennandi...

Þórarinn, leiðbeinandinn hennar Ernu, kemur svo á morgun og verður í nokkrar vikur í Philly að vinna að rannsóknum. Svo það ætti að vera fjör næstu vikurnar hjá okkur:)

Annars er bara allt í góðu hérna, farið að kólna aðeins sérstaklega á kvöldin og snemma á morgnanna en það er kannski bara ágætis undirbúningur fyrir flutninginn heim!!!

þriðjudagur, 14. október 2008

Haustlitir

Jæja þá er komið að vikulega blogginu okkar!
Það er allt gott að frétta héðan, við fylgjumst með ástandinu heima úr fjarlægð og reynum að láta það ekki á okkur fá.

Við fórum í mat til Rainu og Darshan á laugardagskvöldið í ekta indverskt með rosagóðum kjúkling í karrý, nan brauð, hrísgrjón og alles.

Á sunnudaginn skelltum við okkur til Hawk Mountain en við fórum í göngu þar fyrir tæpu ári síðan. Við fórum í mjög skemmtilega göngu og sáum m.a. Bald Eagle, Sharp-shinned Hawk og Red Tailed Hawk svífandi yfir. Ránfuglar eru semsagt á farflugi núna og svífa yfir svona staði þar sem uppstreymi er mikið. Þarna var mikið af fuglaskoðurum og fór kliður um hópinn þegar við sáum Skallaörninn fræga sem er þjóðartákn Bandaríkjanna.
Haustlitirnir voru mjög fallegir og veðrið frábært og varla hægt að njóta lífsins betur en úti í náttúrunni.
Hér er Erna í þessu fallega umhverfi:



Það er nóg að gera í vinnunni eins og venjulega. Nú er kominn tími á haustskreytingar í görðunum og höfum við m.a. sett upp nokkrar þannig með graskerjum ofl skemmtilegu. Hér er ein slík:



Já það er skrítið að skreyta svona að hausti til og planta stjúpum þegar það er kominn vetur heima...

Annars er bara allt í gúddí hérna, skrýtið að hugsa til þess að séum búin að vera í meira en ár hérna og að styttist í heimkomu en okkur hlakkar til að koma heim til ykkar!

Bestu kveðjur
Hlynur og Erna

föstudagur, 10. október 2008

Til hamingju Ísland!

Það var hressandi að lesa Metro blaðið í lestinni í morgun og sjá þessa grein um Ísland.



Ég segi bara til hamingju Ísland!

Bjartsýniskveðjur

Hlynur

sunnudagur, 5. október 2008

Gönguferðir og listasöfn

Hæ allir saman

Það er mikið líf og fjör hér í Philly þessa dagana. Það er hver hátíðin á fætur annarri. Á föstudagskvöldið fórum við í Old city hverfið þar sem gallerý og búðir voru opnar fram eftir kvöldi. Fórum á veitingastað og loksins fékk ég mér þennan fræga Maine Lobster, algjör snilld.



Í gær fórum við í göngu út fyrir borgina. Keyrðum norður fyrir borgina og gengum um Skippack Creek. Þetta var mjög fallegur staður í litlum State Park sem varla nokkur maður veit hvar er, enda var frekar erfitt að finna hann.
Það var dásamlegt að ganga um laufskóginn og sjá haustlitina rétt að byrja. Hitastigið núna er líka alveg fullkomið fyrir göngu og veðrið mjög fallegt. Við sáum nokkra fugla og dádýr en það sem bar hæst var þegar ég sá fiskiörn, Osprey, fljúga þarna í þessu þrönga gili og krákurnar alveg brjálaðar að reyna að fæla hann í burtu.



Þegar við komum heim þá skelltum við okkur í bæinn á Midtown Festival. Það var margt um manninn, góður matur og allt í gangi.

Í dag fórum við á safn sem heitir Barnes Foundation. Þetta er safn í einkaeigu með miklu safni listaverka m.a. eftir Renoir, Cézanne, Matisse, Chirico, Gauguin, El Greco, Goya, Manet, Monet, Picasso, Van Gogh, Rousseau, Miro ofl.
Safnið er staðsett í fallegu úthverfi og garðurinn og húsið er mjög flott.

Skruppum svo í Whole Foods þar sem íslenskt lambakjöt var aðalmálið, en það fyrsta sem við sáum þegar við keyrðum að búðinni var stór auglýsing með íslensku Free Range lambakjöti.



Þegar ég var svo að skoða kjötið í búðinni þá kom einn kjötvinnslumaðurinn og sagði mér að íslenska lambakjötið væri mun vinsælla en nýsjálenska kjötið og seldist bara mjög vel. Það er skemmst frá því að segja að ég keypti mér nokkra bita og get varla beðið eftir að matreiða þá.

Vikurnar líða hratt núna og við erum eiginlega með plan fyrir allar helgar þangað til að við komum heim. Við eigum m.a. eftir að fara í Delaware Water Gap, ganga hluta Appalachian Trail ofl, ofl...

Biðjum að heilsa í bili

Kveðja

Hlynur og Erna Sif

sunnudagur, 28. september 2008

Haustið á næstu grösum

Jæja þá er veðrið aðeins farið að breytast hérna hjá okkur. Það er búið að rigna svoldið síðustu daga en það er ennþá rúmlega 20°C hiti.
Í gær skruppum við á Sædýrasafnið í Baltimore en það er víst það flottasta hér í landi.
Það var alveg frábært en það var mikið af fólki á köflum. Við sáum endalaust af sjávardýrum, sérstaka froskasýningu og svo var ótrúleg endurgerð á árgljúfri frá norður Ástralíu en við höfum einmitt farið kajakferð um þannig svæði.

Annars höfum við bara verið í chilli í dag og notið þess að vera rólegheitunum. Tíminn flýgur ótrúlega hratt áfram og við trúum því varla að það séu bara 2 mánuðir í heimkomu!

Knús Hlynur og Erna

þriðjudagur, 23. september 2008

Fréttir frá Philly

Hæ öllsömul.

Helgin var ansi skemmtileg hjá okkur. Við fórum í göngu á laugardeginum í White Clay Creek State Park í Delaware. Veðrið var alveg fullkomið fyrir göngutúr, þægilegt hitastig og sól. Loksins komið gönguveður aftur og nú er bara að fara í göngur um hverja helgi...

Hér erum við á POD í góðu stuði:



Á sunnudaginn komu Valla og Geir í heimsókn og við fórum á ansi sérstakt safn, Mütter museum, en það er læknisfræðilegt safn með líkamsleifum og sögu m.a af síamstvíburum. Það var mjög athyglisvert að lesa um nokkra fræga síamstvíbura eins og Chang og Eng. Annar var alltaf hress og í góðu skapi en hinn var þunglyndur og drykkfelldur. Svo feðraði annar 10 börn og hinn 11 en þeir giftust systrum, sem áttu heima hlið við hlið. Svo bjuggu þeir viku og viku á hvorum stað! Skrítið...
Enduðum svo daginn á bjór á Pod og mat á Pizza Rustica en það er uppáhaldsstaður Geirs og Völlu í Philly.

Svo fréttum við óvænt af því að Mugison yrði með tónleika hérna í borginni og við skelltum okkur í gær. Þar hittum við Davíð Þór píanista og músíker en hann er að spila með Mugison á þessum túr um Bandaríkin. Það var ansi skemmtilegt að hitta hann og spjalla um gamla tíma frá því í Big bandinu í gamle dage...
Tónleikarnir voru algjör snilld, þvílík spilamennska og stuð hjá drengjunum.

Hér eru þeir á útopnu




En já kominn tími á háttinn...

sunnudagur, 14. september 2008

Áfram Phillies!

Þá er Raggi farinn heim eftir skemmtilega viku í NY og Philly og Erna komin heim frá Maine.

Ég og Raggi höfðum það gott hérna í Philly, skoðuðum borgina og krárnar, fórum í spilavíti í Atlantic City, lentum í fangelsi og fleira skemmtilegt!
Reyndar fórum við í gamalt fangelsi sem er safn núna og hýsti meðal annars Al Capone hér forðum daga.
Hér erum við félagarnir á boardwalkinu í Atlantic City.



Það var voða gott að fá Ernu svo aftur heim, alltaf eitthvað flakk á henni...
Þetta var reyndar ansi strembið námskeið sem hún var á en hún náði þó að sjá eitthvað af náttúrunni þarna og kynnast skemmtilegu fólki. Það eru komnar myndir á flickr síðuna okkar frá þessu ferðalagi hennar.

Í gær var okkur boðið í útskriftarveislu hjá Dawn sem vinnur með mér. Hún var að útskrifast sem garðyrkjufræðingur og hélt grillveislu í garðinum. Það var frábært að fá grillaða hamborgara og pulsur... Söknum svo grillsins okkar.
Hér er Dawn að grilla.



Í dag fór ég svo á hafnarboltaleik ásamt 44.000 öðrum Phillies stuðningsmönnum með Rainu og Darshan. Erna komst því miður ekki vegna flensugleði.
Þetta var alveg frábær skemmtun, leikurinn var skemmtilegur, Phillies voru í stuði og unnu leikinn og svo var maturinn alveg geggjaður á leikvanginum.
Það er víst alveg jafn stór hluti af því að fara á leik að borða sveittar pulsur, Kielbasa eða Italian Sausage með alls konar gumsi og að horfa á sjálfan leikinn.
Svo fengum við okkur franskar með krabbakryddi og bráðnum osti.
Þvílík snilld!



Nú bíðum við bara eftir haustinu með aðeins mildara veðri og gönguferðum.

Biðjum að heilsa í bili

Kveðja

Hlynur og Erna Sif

sunnudagur, 7. september 2008

Raggi í heimsókn



Raggi er í heimsókn þessa dagana og Erna er á námskeiði upp í Maine þannig að það er allt í gangi hér eins og venjulega.

Við félagarnir vorum í NY í nokkra daga og gerðum margt skemmtilegt. Á miðvikudaginn fórum við á Village Vanguard jazzklúbbinn sem er einn af þeim frægari í heiminum. Sáum Joe Lovano og einhverja dúdda spila sem var mjög skemmtilegt. Okkur fannst þetta þó óþarflega súrt á köflum en upplifunin var frábær!
Á fimmtudaginn fórum við svo í Staten Island Ferry og sáum útsýni yfir Manhattan og hverfin í kring og svo auðvitað Frelsisstyttuna. Svo röltum við bara um borgina, skoðuðum hin ýmsu hverfi og tókum því rólega.

Fórum svo á Comedy Cellar um kvöldið og vorum gjörsamlega teknir í gegn af grínurunum enda sátum við á fremsta borði! Var mikið grín gert að Íslandi, hversu hvítir við vorum og hvort við hefðum aldrei séð aðra kynþætti áður... Svo reyndi einn að segja nafnið mitt og notaði það í svona fimm mínútur og salurinn lá í krampa og ég gat varla andað fyrir hlátri.
Þegar síðasti grínarinn fór upp á svið þá var hann með mjög grófan húmor sem ekki er hægt að hafa eftir hérna og það var einhver sem henti skeið í hann. Við héldum að það ætlaði allt að sjóða upp úr en gæjanum var kastað út og showið hélt áfram.

Föstudagurinn var að mestu leiti bara chill og svo tókum við lestina til Philly.
Í gær ætluðum við að skoða borgina en það varð ekki mikið úr því vegna Hönnu sem var að fara yfir svæðið. Skruppum aðeins í mollið og keyrðum um Main Line hverfið og chilluðum svo heima meðan óveðrið gekk yfir.
Við vorum svo að horfa á sjónvarpið þegar útsendingin var allt í einu rofin og gefin út aðvörun um hugsanlegan hvirfilbyl (tornado) í nokkrum sýslum þ.á.m í Philadelphia. Við vorum náttúrulega frekar skelkaðir en svo leið tíminn og ekkert gerðist og svo var veðrið farið yfir. Við fórum svo aðeins út um kvöldið og sáum að það var eitt tré sem hafði fallið á götu hérna rétt hjá okkur.

En í dag er stefnan tekin á Atlantic City með boardwalki og spilavítum.

Bið að heilsa í bili

Kveðja

Hlynur

þriðjudagur, 2. september 2008

Þriðja sæti í ljósmyndakeppni!



Hæ snúllurnar okkar

Við getum ekki annað en montað okkur af hinu ótrúlega afreki að vinna verðlaun í ljósmyndasamkeppni í dag!!!!

Hin ótrúlega merkilega samkeppni var ljósmyndasamkeppni skiptinema við HÍ og við lentum í hinu ógurlega virðulega 3.sæti:)
En já bara gaman af þessu, hin risastóru 10 þúsund króna peningaverðlaun fara í út að borða fyrir ljósmyndasnillingana!

Myndin merkilega er semsé hérna fyrir ofan og ef þið viljið sjá bæklinginn sem myndin birtist í (heilsíðumynd nota bene:) þá má finna hann hér í pdf:
http://ask.hi.is/Apps/WebObjects/HI.woa/swdocument/1013983/Skiptin%C3%A1m.pdf

Hér er tilkynningin um verðlaunin:
http://ask.hi.is/page/myndasamkeppni

Annars er bara allt gott að frétta af okkur héðan úr sumrinu í Philly, Hlynur fer og hittir Ragga í New York á morgun og minns fer á 8 daga námskeið í Acadia þjóðgarði í Maine...

Knús Erna og Hlynski

miðvikudagur, 27. ágúst 2008

Kominn tími á smá blogg

Jæja það er varla tími fyrir blogg þessa dagana enda mikið fjör í gangi í Philly.

Sigga er búin að vera hjá okkur síðustu vikuna og búið að vera frábært að hafa hana í heimsókn. Erna hitti hana í New York síðasta fimmtudag og þær voru í tvo daga að dandalast um borgina.



Svo tók ég lestina á laugardeginum og við fórum saman á Lion King show á Broadway. Það var alveg mögnuð upplifun!
Á sunnudaginn fórum við á ströndina í Cape May eins og venjulega. Sjórinn er loksins orðinn þolanlega volgur og við fórum alveg útí í fyrsta skipti í sumar.
Erna og Sigga hafa svo verið að skoða borgina og mollin síðustu daga.
Í gær hittum við Svan, sem er að stúdera í Rutgers University í New Jersey en hann átti leið um Philly og hafði frétt af okkur hérna. Við fórum auðvitað á uppáhaldsstaðinn okkar, New Deck Tavern. Hér erum við á góðri stund.



Sigga fer á morgun og framundan er löng helgi þar sem það er Labor Day á mánudaginn.

Svo já, allt í gangi en skulum vera duglegri að skrifa núna!

Knús
Hlynur og Erna

sunnudagur, 17. ágúst 2008

Princeton og ströndin

Þá er kominn tími á smá blogg.

Það var gott að endurheimta konuna í síðustu viku og fá íslenskt góðgæti eins og flatkökur, hangikjöt, pulsur, harðfisk og fullt af íslensku nammi!

Á föstudagskvöldið fórum við í bíó á Batman myndina. Við vorum ekkert mjög hrifin, allt í lagi mynd en óþarflega langdregin.

Í gær skelltum við okkur í heimsókn til Völlu og Geirs í Princeton í New Jersey. Við kynntumst þeim fyrir algjöra tilviljun þegar Valla sá tvo hávaxna ljóshærða með Cintamani bakpoka í lestinni og dró réttar ályktanir. Geir er semsagt í Princeton háskólanum og Valla er í Drexel sem er hérna rétt hjá okkur.
Princeton er mjög skemmtilegur bær, við fórum í göngu um bæinn, sáum campus, miðbæinn og canal sem rennur þarna í gegn. Hérna erum við upp í klukkuturni með gott útsýni yfir bæinn.



Princeton er mjög fallegur bær og gæti varla verið ólíkari Philly en í Princeton búa ekki nema 30.000 manns og allt er mjög lítið og vinalegt. Enduðum svo daginn á því að fara út að borða á mjög góðan ítalskan stað sem er í uppáhaldi hjá þeim.
Hér er svo mynd af kagganum sem var leigður fyrir daginn.



Í dag fórum við svo á ströndina í Cape May. Það er víst óvenju "svalt" þessa dagana en okkur fannst hitinn fullkominn í dag, um 28°C.
Það var fínt að chilla á ströndinni, lesa og njóta veðursins.
Framundan er svo næsta hrina af heimsóknum. Sigga systir Ernu kemur á fimmtudaginn í þessarri viku og svo kemur Raggi í byrjun september.

Þannig að það er áfram stuð og fjör í Philly:)

Kveðja

Hlynur og Erna Sif

þriðjudagur, 5. ágúst 2008

Grasekkillinn skrifar



Já kallinn er einn heima þessa dagana meðan Erna spókar sig um á Íslandi. Ég hef það nú bara fínt, tók mér frí í dag í vinnunni og fór á kanó á Pine Barrens svæðinu í New Jersey. Það var magnað hvað var hægt að komast langt frá allri byggð þarna og njóta náttúrunnar í þéttbýlasta fylki Bandaríkjanna. Ég sá nokkur dádýr, skjaldbökur og svo sá ég nokkra fugla sem ég hafði ekki séð áður. Þar var American Redstart flottastur en svo voru nokkrir aðrir flottir eins og Common Yellowthroat en hann er eins og með grímu yfir andlitinu.
Kíkið á myndir hér: http://en.wikipedia.org/wiki/American_Redstart
http://en.wikipedia.org/wiki/Common_Yellowthroat



Annars var þetta frábær ferð, ótrúleg kyrrð og náttúran mjög falleg þarna.
Það var bara í kaldara lagi í dag, undir 30 gráðunum sem er víst bara treat hérna í ágúst.



Jæja hef ekki mikið meira að segja í bili

Kveðja

Hlynur

laugardagur, 26. júlí 2008

Allt að gerast í Philly!

Já það er mikið búið að brasa síðustu vikurnar og höfum við varla haft tíma í blogg eða að setja inn myndir á flickrið en það kemur allt saman.

Við fórum á frábæra tónleika með Coldplay í gær og erum varla komin á jörðina ennþá! Það var brjáluð stemming en Wachovia Center var pökkuð þúsundum manna.

Þeir spiluðu nýju plötuna sem við erum búin að hlusta á síðasta mánuðinn og er alveg frábær plata. Svo komu nokkur gömul og hef ég aldrei heyrt jafn miklar undirtekir hjá áhorfendum þegar þeir tóku Fix you en gjörsamlega allir sungu með og höllin titraði!
Chris Martin var algjörlega magnaður, þvílík orka í manninum, hljóp, dansaði (ef dans mætti kalla) og trylltist á píanóinu inn á milli allan tímann.
Svo var mjög flott þegar öll hljómsveitin hljóp í gegnum áhorfendur og fór alveg aftast í salinn þar sem var míkrafónn og tóku eitt lag þar innan um áhorfendur sem ætluðu alveg að ganga af göflunum.
Já þetta var þvílík upplifun og þið getið upplifað smá með því að kíkja á þennan link:
http://www.coldplay.com/newsdetail.php?id=83
En þar er brot af einu lagi þar sem allir sungu hástöfum með.

Hér er svo myndband af Fix You, nær ekki alveg söngnum hjá áhorfendunum en það er brill að sjá Chris Martins dansa!



Jæja nóg í bili

Kveðja

Hlynur og Erna Sif

sunnudagur, 20. júlí 2008

Stuð og fjör í Philly

Hæ allir saman.

Hér er búið að vera mikið stuð og fjör síðustu daga. Þorri hefur leikið á alls oddi og segir reglulega við mann: Ertu að meina þetta! og hlær!
Það er búið að skoða mikið hér í kring og t.d. í gær fórum við í sveitina að hitta Amish fólkið sem var mjög skemmtilegt. Fórum í hestakerruferð, versluðum á skemmtilegum markaði í Intercourse PA, skoðuðum yfirbyggða brú og keyrðum svo um litla sveitavegi þar sem maður sá fólkið vinnandi á ökrunum með múlasna á plógi. Svo var ótrúlega mikið af maískorni á ökrunum en þeir ná víst að uppskera 5 sinnum á ári.

Hér er Þorri á ströndinni í Cape May í New Jersey


Annars höfum við haft nóg að gera, farið á brasilískt steikhús, skoðað Chanticleer (uppáhalds garðinn okkar), farið í King of Prussia (risamoll), keyrt um Chestnut Hill (hverfið sem ég vinn í), farið á ströndina og skoðað borgina vel.


Í dag fórum við í Wissahickon Creek í smá gönguferð í hitanum og svo kíktum við aðeins í vinnuna til mín.



Svo hefur verið voða kósí að hafa Þorra hjá okkur en hér eru Erna og Þorri að lesa fyrir háttinn.



Kveðja í bili

Hlynur og Erna Sif og litla fjölskyldan

föstudagur, 11. júlí 2008

Loksins smá blogg

Hæ Ísland!

Þá kemur loksins smá blogg hérna frá okkur. Það er búið að vera mikið að gera síðustu viku eða svo.
Það var mikil upplifun í indverska brúðkaupinu sem við vorum í um síðustu helgi.
Við flugum til Columbus í Ohio á fimmtudaginn og fórum beint á glæsilegasta hótel staðarins, The Renaissance. Erna fór beint í svaka gleði með Rainu og fleiri stelpum þar sem var verið að mála Henna á brúðina og fleiri sem vildu, Erna fékk sér smá, voðaflott:) Ég rölti svo um bæinn og sá skrúðgöngu í tilefni 4.júlí þó það væri bara 3.júlí. Það var mikið um dýrðir í þessari skrúðgöngu eins og t.d. Félag pípara í Columbus og svo fræg Idol stjarna, Renaldo Lapuz (athugið Youtube) en mest gaman var að sjá tvær risastórar lúðrasveitir sem spiluðu poppaða útgáfu af þjóðsöngnum. Svo komu nokkrar orustuþotur í lágflugi yfir mannfjöldann sem var mjög gaman að sjá. Kvöldið endaði svo með flugeldasýningu sem við fórum saman á sem var alveg mögnuð, 25 mínútur og held ég bara betri en sumar íslensku sýningarnar vegna þess að það var meira í gangi á hverjum tíma. Frekar fyndið að einhver var með útvarp og þjóðsöngurinn var spilaður við mikil viðbrögð og svo chantaði hópurinn U S A heillengi. Sé ekki Íslendingana fyrir mér í þessum ham...

Á föstudaginn fór Erna svo í sitt fyrsta Bridal Shower og ég rölti með nokkrum brúðkaupsgestum í German Village þar sem við fengum okkur frábæran brunch. Um kvöldið var svo haldið á hótel rétt fyrir utan borgina í indverska Garba dansveislu. Þar var boðið upp á indverskan mat, missterkan og svo var dansað í þrjá klukkutíma í hringi og með prik undir dynjandi indverskri tónlist. Það var mikið um litríkan klæðnað (sarí) og allir tóku þátt í dansinum, ungir sem aldnir og Erna og Hlynur líka. Stóðum alveg út úr í hópnum en náðum bara að dansa ansi mikið.

Á laugardaginn bauð fjölskylda brúðarinnar í veislu á Buca di Beppo sem er ítalskur staður og eftir það fórum við í partý sem Darshan hélt fyrir vini sína.

Giftingin var svo á sunnudeginum í sveitaklúbbi utan við borgina. Hún byrjaði með klukkutíma af dansi og brúðguminn kom á hvítum hesti til að hitta foreldra brúðarinnar sem á að vera hefðbundið í Indlandi nema þar er fíll notaður. Þetta var allt saman mjög hefðbundið og svo var komið að athöfninni sem fór fram á sanskrít en var að mestu leiti þýdd á ensku. Athöfnin var mjög falleg og mikið af siðunum var öðruvísi fyrir okkur.
Eftir athöfnina var lunch og svo höfðum við smá tíma til að slappa af áður en veislan hófst en hún var haldin á hótelinu okkar. Veislan var mjög skemmtileg, góður matur og mikið dansað. Erum orðnir sérfræðingar í indverskum dansi eftir þetta!

Já mikil upplifun og frábært að fá að vera partur af þessu.

Annars hætti stuðið ekkert hjá okkur því Una Björk, Þröstur og Þorri komu á þriðjudaginn sem er frábært og svo gaman að hafa þau í heimsókn.

miðvikudagur, 2. júlí 2008

Stutt vinnuvika og gleði framundan

Jæja þá er stutt vinnuvika búin og á morgun fljúgum við til Columbus, Ohio í fjögurra daga brúðkaup hjá Darshan og Rainu. Þetta verður ábyggilega mikil upplifun og við vitum eiginlega ekkert við hverju við eigum að búast. Það sem við vitum er að það verður hvítur hestur fyrir brúðgumann, Henna málning, indverskur dans og svo er væntanlega nóg af indverskum mat.

Svo getum við varla beðið eftir Unu Björk, Þresti og Þorra sem koma hingað næsta þriðjudag. Það verður kátt í litlu Ikea íbúðinni okkar næstu vikurnar.

Annars er lítið að frétta svo sem. Vinnan gengur sinn vanagang nema að við höfum varla undan að vökva í þurrkinum hérna. Það er varla búið að rigna hérna nema smá skúrir öðru hverju í nokkrar vikur og svo er hitastigið frekar stöðugt um 30°C. Sumir garðarnir eru með sjálfvirkri vökvun en við erum með mikið af kerjum með sumarblómum í og það þarf að vökva þau mikið.

Það verður áhugavert að upplifa 4.júlí hérna í Bandaríkjunum. Auðvitað verðum við ekki hérna í Philly þar sem þetta allt byrjaði hérna seytjánhundruðogsúrkál en við sjáum væntanlega einhvern gleðskap og flugelda í Columbus.

Biðjum svo að heilsa Úlfi Ægi sem verður tveggja ára þann 4 júlí.
Til hamingju með afmælið Úlfur:)

Kveðja

Hlynski og Ernski

sunnudagur, 29. júní 2008

Þá koma smá fréttir frá okkur hérna í Philly.
Tíminn líður ansi hratt hérna þessa dagana. Í gær fórum við til Cape May í strandargleði. Þetta er kósí lítill bær og ströndin er mun rólegri en í Wildwood þar sem við fórum síðast. Það er skemmtileg tilbreyting að fara á ströndina og gott að komast frá hitanum í borginni.



Í dag skelltum við okkur í Manayunk sem er úthverfi hérna í Philly. Við ætluðum bara að skoða hverfið og fá okkur brunch en svo var bara risastór markaður í tengslum við einhverja listahátíð í hverfinu. Við keyptum okkur ansi skemmtilega boli og skoðuðum endalausa bása með alls konar listmunum. Þessi markaður var mjög skemmtilegur og gaman að ramba svona á þetta. Hér er ég að smakka grillað svínakjöt eða eins og herferðin heitir: The other white meat.



Nú er bara stutt vinnuvika framundan, á fimmtudaginn fljúgum við til Columbus, Ohio í brúðkaup vina okkar hérna, Darshan og Rainu. Það verður mikið fjör, enda fjögurra daga veisluhöld að indverskum hætti.
Svo er náttúrulega 4. júlí framundan og það verður áhugavert að sjá hvernig kaninn heldur upp á það.

Er að setja nokkrar myndir úr vinnunni inn á flickrið, tjékkið á þessum villum!

þriðjudagur, 24. júní 2008

Íslandsför:)

Halló snúllurnar mínar

Vildi deila með ykkur gleðinni en minns er að koma heim í smá vinnuferð og heimsókn 1-10.ágúst:)

Hlakka ekkert smá til að koma aðeins heim og knúsa ykkur öllsömul...

Erna

sunnudagur, 22. júní 2008

Helgin í Philly

Þá er vinnuvikan framundan eftir skemmtilega helgi.
Eftir frekar tíðindalitla vinnuviku þá skelltum við okkur aðeins á djammið með Rainu og Darshan á föstudagskvöldið. Fórum á Dj kvöld þar sem var spiluð bangra tónlist ásamt öðru. Komumst að því að heyrnin okkar þoldi þetta ekkert svo vel, hávaðinn var þvílíkur ... Ætli maður sé bara ekki gamall?

Í gær keyrðum við norður fyrir borgina á Phillycarshare bílnum okkar. Það er nýbúið að bæta við bílum í nágrenninu og það er kominn einn Prius við húsið okkar sem er mikil gleði.



Við fórum í göngu sem heitir The Pinnacle. Við ákváðum fyrir helgina að reyna að fara í eina göngu enn meðan ekki væri orðið of heitt. Hitinn var þó um 30°C og svoldið heitt en þegar við komum upp á toppinn á "fjallinu" (frekar hóll að okkar mati) þá var aðeins kaldara. Útsýnið var frábært en við erum enn að venjast því að sjá bara útsýni yfir ræktað land og sveitir en byggðin hérna á austurströndinni er ansi þétt.
Hér er ein mynd úr göngunni.



Eftir gönguna skelltum við okkur í Cabelas búð sem var þarna rétt hjá. Veit að Svanur mágur og Kári svili öfunda okkur af því þegar þeir lesa þetta. En þvílík búð! Þetta er víst stærsta Cabelas búðin með 23.000m2 af gólfplássi. Komumst að því að þetta var ansi mikil redneck búð en það var magnað að sjá þetta. Heilu dýrahjarðirnar uppstoppaðar, allt frá fílum til ísbjarna (einu ísbirnirnir sem við fáum að sjá) og svona 5000 veiðistangir, byssur allt frá skammbyssum til hríðskotariffla (ágætis sjokk að sjá slíkt bara hríðskotariffla í búðarborðinu) og fleiri ótrúlegir hlutir http://en.wikipedia.org/wiki/Cabelas
Reyni að setja myndir af þessu fljótlega.

Í dag ákváðum við að hafa það notalegt og kíkja aðeins í bæinn. Það endaði með allsherjar verslunarferð! Byrjuðum að fara í Macy´s sem er algjör snilldarbúð með allt mögulegt til sölu. Fengum okkur svo Crepe á Reading Terminal Market. Svo gengum við Walnut Street til baka en það er helsta verslunargatan hérna. Þar voru H&M og Zara og fleiri búðir teknar í gegn. Ég var nú hálfgert burðardýr en fékk nú að versla mér smá...

Nú er maður bara að fylgjast með EM, var að horfa á Spán - Ítalíu. Þvílík snilld að sjá Spán fara áfram. Hef aldrei haldið með Ítalíu í fórbolta og gott að vera laus við þá úr keppninni.

Við erum farin að hlakka ansi mikið til að fá Unu Björk, Þröst og Þorra í heimsókn en það styttist í það, gaman, gaman...


Kveðja

Hlynur og Erna Sif

þriðjudagur, 17. júní 2008

Gleðilega þjóðhátíð!

Til hamingju með daginn kæru landar.
Við gerðum nú ekkert sérstakt í tilefni dagsins en við sungum Hæ,hó jibbí jei áðan til að koma okkur aðeins í gírinn!

Hér er vinnuvikan komin á fullt. Hitastigið er búið að vera fullkomið fyrir vinnuna hjá mér, 25°C og ótrúlegt hvað dagarnir líða hratt. Það er svosem ekkert sérstakt í gangi í vinnunni, mánudagar og þriðjudagar eru skemmtilegastir. Þá förum við yfir í Main Line þar sem við erum í hverri viku. Það tekur rúman hálftíma að keyra þetta (já það er aðeins lengra að keyra milli hverfa hér en heima) og svo erum við bara að sjá um þennan glæsilega garð í rólegheitunum. Það er alveg magnað að sumir kúnnarnir okkar hafi tvo garðyrkjufræðinga í vinnu tvo daga vikunnar ellefu mánuði á ári! En garðurinn er eiginlega listigarður og nóg að gera. Eplatrén sem ég eyddi þremur dögum í að klippa til í vor eru glæsileg núna og mikið af eplum að þroskast. Eitt af því sem er frábært við að vinna þarna er að maður er alveg kominn eiginlega út í náttúruna, allt er skógi vaxið og mikið af fuglum og dýralífi.
Hér er mynd af mér við eitt tréð í garðinum, Umbrella Magnolia en laufblöðin geta orðið ansi stór eins og þið sjáið.



Við keyptum nýja Coldplay diskinn í dag og erum núna að hlusta, lofar góðu. Erum semsagt að undirbúa tónleikana með þeim sem verða seinnipart júlí hérna í Philly.

Vona að þið hafið átt góðan dag, virðist hafa verið gott veður aldrei þessu vant á þann seytjánda...


Kveðja

Hlynur

laugardagur, 14. júní 2008

Strandargleði

Þá er erfið vinnuvika að baki. Ég fékk að kynnast því hvernig þetta verður í sumar, frekar heitt og mollulegt. En ég komst í gegnum þetta og ætti því að lifa sumarið af...

Ég er farinn að sjá alveg um erfiðasta kúnna fyrirtækisins (og einn stærsta) eftir að vinnufélagi minn lenti eitthvað upp á kant við hana. Það er frekar stressandi en ég hef náð að láta allt ganga upp hingað til. Joe, eigandi fyrirtækisins, virðist vera ansi ánægður með Íslendinginn sinn og ég er sá eini sem hann kallar buddy!
Annars líður hver vinnuvika hratt fyrir sig og áður en maður veit af er komin helgi á ný.

Í dag keyrðum við á ströndina í Jersey, byrjuðum á að fara til Wildwood. Ströndin þar var mjög fín og lágum við eins og skötur þar í nokkra tíma. Gengum svo á boardwalkinu og sáum alveg nýja hlið á strandlífi. Það er ótrúlega mikið gert úr skemmtun og afþreyingu og stundum gengur þetta of langt. Þarna var semsagt allt frá mini golfi upp í þrjá skemmtigarða með tívolítækjum og einn vatnsrennibrautagarður. Þetta var allt frekar gamaldags eins og hápunktur staðarins væri liðinn. Eftir að hafa upplifað þetta þá keyrðum við til Cape May sem er syðst í Jersey og fórum aðeins á ströndina þar. Svo gengum við um bæinn sem er mjög kósí og gamaldags. Bærinn er frægur fyrir Viktorískan byggingarstíl og það var gaman að sjá öll litlu B&Bin sem eru þarna.
Okkur líkaði miklu betur við þennan stað en Wildwood og ekki spurning hvert við förum næst á ströndina.

Bless í bili

Hlynur og Erna Sif

þriðjudagur, 10. júní 2008

Kindablogg

Halló snúllurnar mínar

Víst löngu komin tími til að kindin láti heyra í sér hérna...

Allt gott að frétta af okkur í bráðnandi hitanum. Fannst þetta nú aðeins of mikill hiti þegar er komið í líkamshita og slatta raki með. En það er að kólna núna og hinu fullkoma hitastigi 30°C spáð á morgun.

Var með rannsókn um helgina, rannsóknirnar mínar eru loksins að komast almennilega í gang hérna og ég notaði helgina í að kenna nýju starfsfólki svo þetta rúlli vel í sumar. Er svo langt komin með tvær greinar til birtingar, eina úr mastersnáminu og aðra yfirlitsgrein um kæfisvefn svo ég er bara ansi sátt með vinnuna þessa dagana:)

Minns var svo að kaupa sér miða á Madonnutónleika í nóvember:) Hlynur harðneitaði að fara á svona stelputónleika svo ég og Raina ætlum að skella okkur saman. Er þvílíkt spennt þar sem ég hef verið Madonnu aðdáandi frá því að ég var lítil. Átti nota bene allar plöturnar hennar og spólurnar og var bara með Madonnuplaköt upp á vegg. Öfundaði alltaf eldri systir einnar vinkonu minnar sem átti Madonnu rúmföt! Veit svosem ekkert hvernig nýji geisladiskurinn hennar er en held að það sé alltaf gott show að fara á tónleika með henni.

Mæli með Sex and the City myndinni, fór á hana á sunnudaginn með Rainu (annar hlutur sem Hlynur var ekki spenntur fyrir enda algjör stelpumynd). Algjör snilldarmynd, ná alveg að gera alvöru plot en ekki bara einn langan þátt eins og ég var pínku hrædd um áður. Svo já bara brilliant stelpumynd!

Annars bíðum við bara spennt eftir strandarferð næstu helgi!!!

Knús
Erna

Ps. Árni við misstum því miður af Eurovision, það hefði verið gaman að sjá Ísland komast upp úr undanúrslitunum loksins og fá að vera með í alvöru keppninni...

Hvað er annars í gangi heima, jarðskjálftar, ísbirnir og bensínverð á leiðinni í 200kallinn????

laugardagur, 7. júní 2008

Hitabylgja í Philly

Það er vel heitt í dag hjá okkur, fór yfir 35°C og frekar mikill raki. Erna er með rannsókn í gangi alla helgina (sleep deprivation)og þurfti að mæta snemma en ég leigði mér Prius og skrapp í Tinicum að skoða fugla. Ég sá nokkra warblera, Orchard Oriole og fullt af öðrum fuglum. Þegar var komið að hádegi þá var farið að hlýna ískyggilega en ég ákvað að kíkja í Bartram´s Garden http://en.wikipedia.org/wiki/Bartram%27s_Garden
sem er einn elsti grasagarður Bandaríkjanna. Þetta var mjög lítill og kósí garður sem var skemmtilegt að skoða.

Hitinn var hins vegar að ná hámarki og ég fór og náði í Ernu upp á spítala og við keyrðum upp í Main Line og höfðum það notarlegt á kaffihúsi, skruppum í nokkrar búðir og fengum okkur heimagerðan ís á Ardmore´s Farmers Market.

Enduðum svo á að fara í Target og kaupa strandargræjur fyrir sumarið. Keyptum m.a. strandarstóla, risahandklæði ofl. Í þessum hita þá er ekkert annað en ströndin sem virkar!

Veðurspáin næstu daga er frekar svakaleg en það á að verða heitara en í dag og við skulum sjá hvernig gengur að vinna í svona hita á mánudaginn. Maður byrgir sig upp af vatni og makar á sig sólarvörn, settur derhúfuna á hausinn og reynir svo að finna skuggsæla staði hjá Mclains til þess að vinna.

Bið að heilsa í bili

Kveðja

Hlynur

þriðjudagur, 3. júní 2008

Fjör með Jan, Susanne og Otto

Hæ!

Þá eru Jan, Susanne og Otto farin heim. Eins og alltaf þegar við fáum gesti þá líður tíminn mjög hratt og fannst okkur eiginlega tíminn of fljótur að líða í þetta skiptið.
Þau voru mjög dugleg að skoða borgina í síðustu viku en um helgina leigðum við bíl og keyrðum í Chanticleer garðinn sem er alveg frábær garður fyrir alla aldurshópa. Fengum mikla rigningu og þrumur á okkur en það var allt í lagi því við fengum okkur bara sæti á veröndinni hjá aðalhúsinu þar sem voru fín húsgöng og skjól frá rigningunni. Þar borðuðum við hádegissnarl og heyrðist í konu sem sat rétt hjá: Those Europeans are so smart, bringing lunch! Eftir smá snarl og rólegheit þá hætti rigningin og við náðum að skoða garðinn betur.



Eftir þetta var haldið í risamollið, King of Prussia en Jan og Susanne vildu endilega reyna að versla sér eitthvað enda evran þeirra ansi sterk gagnvart dollar. Meðan þau fóru að versla þá vorum við Erna með Otto í skemmtilegum búðum eins og Disney Store og bangsabúðum en eftir rúman klukkutíma var hann búinn að fá nóg og vildi fá mömmu sína.

Á sunnudaginn var svo komið að strandardegi. Við höfðum ekki enn farið á ströndina í Jersey þannig að við vissum ekkert við hverju var að búast og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Ocean City var reyndar full af fólki en ströndin var mjög fín og brjáluð sól og hiti. Otto var alveg í essinu sínu og lék sér mikið en við hin gátum aðeins slakað á í sólinni.




Á mánudaginn fór svo Erna með þeim til New York í dagsferð sem heppnaðist mjög vel. Þau fóru á toppinn á Rockefeller Center, gengu um Soho, picnic í Central Park, fengu flott útsýni úr Staten Island ferjunni svo eitthvað sé nefnt. Jan og Susanne voru bæði agndofa yfir borginni og voru strax farin að plana næstu ferð í borgina.

En já núna er bara tómt í kotinu og við bíðum spennt eftir næstu gestum í júlí þegar Una Björk, Þröstur og Þorri koma í heimsókn.

Kveðja

Hlynur og Erna Sif

miðvikudagur, 28. maí 2008

Virginia og Shenandoah

Hæ allir saman!

Hér er nóg að gerast, Jan, Susanne og Otto komu í gær og það er mikið fjör á bænum.

Helgin var alveg frábær hjá okkur. Við fórum með Darshan og Rainu til Virginia yfir helgina. Fengum að gista hjá systir Rainu í Arlington sem er rétt hjá DC. Á föstudaginn lentum við í svaka grillveislu með systrum hennar Rainu og mökum. Fórum í Whole Foods (geggjuð búð) og keyptum stærstu hamborgara sem ég hef séð og svo þvílíkar pulsur, kjúlla ofl. Mikið fjör og gaman.
Á laugardaginn fórum við í garð rétt fyrir norðan borgina sem heitir Great Falls. Þar rennur Potomac áin í gljúfri með nokkrum fossum og flúðum. Fórum í göngu meðfram ánni og settum tóninn fyrir mikla gönguhelgi.

Eftir þetta fórum við í annan garð sem heitir Lake Attonich held ég og gengum þar skemmtilega göngu í kringum vatnið.

Enduðum svo á að fá okkur Chipotle sem er víst aðal mexíkanski staðurinn hérna en við höfðum aldrei farið á. Minnti ansi mikið á Culiacan í Skeifunni...

Enduðum svo daginn á að kíkja á mannlífið í Georgetown Waterfront. Frábært hverfi og það var bullandi stemmning við ánna, mikið af bátum og fólk að spila á gítar og syngja.

Á sunnudaginn keyrðum við svo í Shenandoah National Park og fórum í erfiðustu gönguna í garðinum, Old Rag Mountain.
http://en.wikipedia.org/wiki/Old_Rag

Þessi 7 mílna ganga var ekki svo erfið fyrst en svo fórum við að príla á sleipum steinum og klifra upp klettaveggi með reipi alles en á endanum komumst við upp og þvílíkt útsýni!



Frábær en erfið ganga!

Stoppuðum svo á ansi sérstökum stað á leiðinni heim, Crackle Barrel
http://en.wikipedia.org/wiki/Cracker_Barrel
og fengum okkur alvöru amerískan sveitamat. Maturinn var fínn og upplifun út af fyrir sig. Okkur hefði aldrei dottið í hug að fara inn á þennan stað en Darshan vildi endilega sýna okkur staðinn en sagði svo eftir á að hann hefði eiginlega notað okkur sem afsökun fyrir að komast sjálfur þangað. Hann fór víst oft þegar hann var lítill.
Svo var aðalmálið eftir matinn að setjast í ruggustólana sem eru til sölu fyrir utan búðina!

Á mánudaginn vorum við svo í Arlington, fengum okkur brunch og gengum um hverfið og niður að ánni. Arlington kom okkur mikið á óvart. Mjög skemmtilegt og vinarlegt hverfi sem við skoðuðum lítið þegar við komum til Washington síðast en fengum að sjá mikið af núna.

Vorum svo mjög heppin á leiðinni heim eftir þessa miklu ferðahelgi, það var lítil umferð og keyrslan tók bara tæpa þrjá tíma.

Já skemmtileg helgi í Virginíufylki að baki og nú er fjör í kotinu með Jan og fjölskyldu. Otto er ekkert feiminn við okkur og byrjði strax að tala við okkur og var m.a. að æfa sig að telja upp á tíu á íslensku með "Tante Erna"!

Biðjum að heilsa í bili

Kveðja

Hlynur, Erna Sif, Jan, Susanne og Otto

þriðjudagur, 20. maí 2008

Matjurtagarðurinn ofl

Mig langaði bara að segja ykkur frá matjurtagarðinum sem ég var að planta hjá Mclains.
Ég plantaði cold season grænmeti fyrir tveimur mánuðum og það er búin að vera blússandi uppskera af grænmeti.
Núna var ég að planta tómatplöntum, eggaldin, gúrkum, papriku, chilli, melónum, súkkíní og ég veit ekki hvað. Þvílík snilld að geta ræktað allt þetta undir berum himni!
Best að koma bara með loftslagið með sér heim...

Það er búið að vera drama með einn kúnnann okkar sem hefur haft allt á hornum sér síðustu tvö skipti sem við komum til hennar. Í bæði skiptin þá rak hún okkur af staðnum því hún var óánægð með samskipti við Joe, yfirmanninn okkar. Svo lenti hún eitthvað upp á kant við Rob sem ég vinn með þannig að í dag var ég sendur á staðinn og allt gekk eins og í sögu.

Við erum á leiðinni til Arlington í Virginia með Rainu og Darshan. Systir Rainu á heima þar og við fáum að gista þar. Við ætlum að fara í létta göngu og bátaferð á laugardaginn og svo fara í langa göngu á Appalachian Trail á sunnudaginn. Þetta er löng helgi, frí á mánudaginn, Memorial Day og spáin er mjög góð.

Á þriðjudaginn fáum við svo gesti frá Þýskalandi, Jan bróðir Ernu og fjölskylduna hans.
Það verður fjör í litlu íbúðinni okkar með Otto litla hlaupandi um og við hlökkum mikið til.

Kveðja

Hlynur og Erna Sif

sunnudagur, 18. maí 2008

Fréttir frá Philly

Liggjum hérna í leti aldrei þessu vant á sunnudegi.
Vikan leið hjá vandræðalaust eins og venjulega. Það er smá rigningartíð hérna um þessar mundir en flesta daga er gott veður. Á föstudaginn rigndi frekar mikið og ég dró Rob í vinnuna. Fór bara í regngallann og unnum í rigningunni.
Á laugardaginn vorum við með Phillycarshare Prius á leigu og keyrðum í Lancaster sýslu til að fara í göngu. Keyrðum í gegnum mjög skemmtilegt sveitahérað með Amish og Mennóníta sveitabæjum um allt. Við þurftum m.a. að keyra mjög varlega vegna mikillar umferðar hestvagna og svo var gaman að sjá vinnusemina á bæjunum þar sem allir, ungir sem aldnir voru við vinnu, krakkar að hreinsa innkeyrsluna, fólk að vinna á örkum og aðrir að slá með nýtísku vélorfum sem benti til þess að það væru mennónítar sem eru aðeins frjálslegri í að nota nútímatækni.
Keyrðum framhjá pínulitlum banka í eitt skiptið sem var með lúgu og sáum Amish mann á hestvagni í lúgunni í viðskiptum sitjandi á hestvagninum.
Þetta virtist vera frekar fáfarinn vegur því flestir veifuðu okkur þegar við keyrðum framhjá.

Fórum svo í göngu í Holtwood Recreation Area, frábær staður þar sem við gengum í gegnum skóg með mikið af Rhododendron og skemmtilegt gil með læk. Sáum slatta af fuglum, m.a. Indigo Bunting og Blue Grosbeak.




Eftir þessa göngu keyrðum við að útsýnisstað yfir Susquehanna ánna þar sem við sáum tugi Turkey Vulture á sveimi ansi nálægt. Sáum því miður ekki Bald Eagle en hann á víst að sjást þarna af og til. Nýji sjónaukinn kom að góðum notum en hann var hluti af afmælisgjöf frá Ernu.




Enduðum svo daginn í verslunarleiðangri í Philadelphia Outlets þar sem sumir keyptu slatta af fötum, nefnum engin nöfn...

Í dag fórum við með Rob, vinnufélaga mínum í Winterthur Gardens í Delaware fylki. Þessi garður var í eigu Du-point fjölskyldunnar og er mjög fallegur, mun náttúrulegri en Longwood Gardens sem við fórum í um daginn.Því miður byrjaði að rigna frekar mikið og við komum bara snemma heim.

Annars er allt gott að frétta. Næsta helgi verður löng helgi fyrir okkur því á mánudaginn verður Memorial Day. Erum að plana eitthvað skemmtilegt fyrir þá helgi.

Kveðja

Hlynur og Erna Sif

miðvikudagur, 14. maí 2008

Vinnan í Chestnut Hill

Hæ allir saman!

Lífið í Philly er í sínum venjulegu skorðum þessa dagana. Ég var reyndar í fríi á föstudag og mánudag vegna rigninga, þessir ræflar hérna í Ameríkunni vinna helst ekki úti í rigningu... Reyndar var ansi mikil rigning báða dagana þannig að ég var nú bara feginn. Í dag fórum við í fyrsta skipti til nýrra kúnna og ég hélt að ég hefði séð það allt saman. En nei, þessi eign er svakaleg. Húsið er örugglega með 30 herbergi og svo er tennisvöllur, körfuboltavöllur, sundlaug og bílskúr fyrir sex bíla!
Já það er ekkert slor. Fólkið er nú ansi vinalegt miðað við suma aðra kúnna og það var bara skemmtilegt að fara á nýjan stað.
Rob sagði mér síðan að þegar forkosningarnar voru hérna um daginn þá kom Obama í heimsókn til þessa fólks því þau eru víst mikilvæg í pólitíkinni hérna.
Já það er skemmtilegt að sjá hvernig fólk býr hérna í Beverly Hills austursins.

Nóg í bili

Kveðja

Hlynur

sunnudagur, 11. maí 2008

Göngugarpar!

Jæja þá er mikilli gönguhelgi lokið. Við leigðum okkur bíl með Phillycarshare í gær, Mini Cooper! Þvílíkur töffarabíll, hann næstum því slagar upp í Litla Burra...



Keyrðum í Tyler Arboretum og fórum í 15 km göngu í skógi sem var fullur af lífi. Sáum marga chipmunks og svo var mikið af fuglum en frekar erfitt að sjá þá alla.
Eftir gönguna skelltum við okkur svo á Cheesecake Factory og fengum okkur alvöru ostakökur (hver er að slefa núna...). Erna fékk sér Fresh Strawberry Cheesecake en ég fékk mér Chocolate Oreo Mudslice Cheesecake!!! Algjör snilld.
Um kvöldið hittum við svo Rainu og Darshan og fengum okkur frábæran burger á stað niðrí bæ.

Í dag ákváðum við svo að skella okkur með lestinni til Chestnut Hill og fórum þar í skemmtilega göngu í Wissahickon Creek.
Á föstudaginn var ansi mikil rigning og chill dagur hjá mér. Þegar er mikil rigning þá er helst ekki unnið í vinnunni minni, hvernig myndi það virka á Íslandi...
Annars hefur veðrið verið yndislegt hérna síðustu vikur, ekki of heitt og bara sól og fínerí.

Moskítóflugurnar eru aðeins að fara á stjá, við höfum fengið nokkur bit það sem af er vorinu og vonum að þau verði ekki mikið fleiri.

Á föstudaginn bættist þvílík græja í eldhúsið, George Foreman Grill! Við söknuðum grillsins okkar svo mikið að við ákváðum að fá eitthvað í staðinn.
Fyrstu prófanir hafa gengið vel og bara fínt að elda á þessu.
Ég bjó meira að segja til egg og beikon í morgunmat í gær!

Biðjum að heilsa öllum mömmunum sem við þekkjum í tilefni mæðradagsins.

Kveðja

Hlynur og Erna Sif

þriðjudagur, 6. maí 2008

Garðyrkjumeistarinn!

Lífið gengur sinn vanagang eftir skemmtilega heimsókn mömmu og pabba.
Við fórum í göngu um helgina í John Heinz Wildlife Refuge sem er hérna rétt fyrir sunnan borgina. Við gengum þar eitthvað um 16 km og sáum mikið af fuglum og líka woodchuck eða Groundhog sem er frekar stórt nagdýr (semsagt risarotta). Fínn dagur og gott að fara í göngu.
Á sunnudaginn var svo íbúðin tekin í gegn og svo fórum við í risaverslunarferð. Tókum bara leigara heim með allt draslið sem kostaði nú ekki mikið.
Það er allt á fullu í blóma ennþá, nú eru azaleur og dogwood tré í miklum skrúða. Og svo er mikið af farfuglum að koma að sunnan þannig að maður sér nýja fugla á hverjum degi. Í gær sá ég Baltimore Oriole
http://en.wikipedia.org/wiki/Baltimore_oriole
sem er appelsínugulur á litinn og í dag sá ég svo
Rose-breasted Grosbeak, bæði karlfuglinn og kvenfuglinn.
http://en.wikipedia.org/wiki/Rose-breasted_Grosbeak
Það er ótrúlegt hvað dagarnir líða hratt í vinnunni, ætli það þýði ekki að maður hafi það gott.

Bið að heilsa í bili

Kveðja

Garðyrkjumeistarinn í Bandaríkjunum

föstudagur, 2. maí 2008

Þá er kallinn orðinn þrítugur!

Já kallinn varð þrítugur í gær og er bara þokkalegur með það!
Afmælisdagurinn var nú ekki með hefðbundnu sniði. Við Erna tókum okkur frí (já það er ekkert frí hér á 1.maí) og fórum með mömmu og pabba í Longwood Gardens. Þar eyddum við eiginlega bara öllum deginum. Þvílíkur garður, við höfum bara ekki farið í flottari garð held ég. Garðurinn er mjög fjölbreyttur og er m.a. með mikið af gosbrunnum, garð með trjám klipptum eins og dýr, risagróðurhús með alls konar mismundandi plöntum og svo skógarstíga þar sem pabbi var í essinu sínu að skoða fugla.
Um kvöldið héldum við upp á afmælið með því að fara á brasilískt steikhús, Fogo de Chao sem var frábær upplifun. Þessi veitingastaður virkar þannig að maður fer fyrst á salatbar sem er sá flottasti sem maður hefur séð og svo getur maður fengið "all you can eat" það sem eftir er kvölds. Þjónarnir ganga þá um salinn með mismunandi kjötsneiðar (Filet Mignon, Sirloin, Top Sirloin ofl.) á stórum teinum og skera fyrir þig sneiðar þegar þú vilt. Ég hef ekki smakkað jafn góðar steikur!

Afmælisdagurinn var nú skrítinn því að síðustu 30 árin hefur maður verið samtvinnaður við Lilju þennan dag, haldið upp á afmælið saman alltaf en ekki í þetta sinn. Ég saknaði hennar nú svoldið...

Já svo kom víst ansi fyndin grein um okkur í Dv. Þröstur sendi mér eintak af henni á netinu áðan og var það í fyrsta sinn sem ég sá hvað stóð þarna, alveg óborganlega fyndið.

Já dvölin hjá mömmu og pabba er á enda. Þau lögðu af stað til Boston í morgun og komu þangað seinnipartinn. Það er búið að vera frábært að hafa þau í heimsókn og þau eru búin að sjá ansi mikið af svæðinu.

Nú bíðum við bara eftir næstu gestum!

Já nokkrar tilkynningar í lokin.

Raggi átti afmæli 30. apríl og Stjáni mágur á afmæli í dag.
Til hamingju með það drengir.

Kveðja

Hlynur og Erna Sif

miðvikudagur, 30. apríl 2008

Stórmerkilegur atburður

Halló elskurnar okkar

Hér í Philly gerist stórmerkilegur atburður á morgun sem ekkert getur stoppað. Atburðurinn þykir svo merkilegur að hið virðulega og glæsilega dagblað DV ætlar að fjalla um atburðinn, mæli með að þið náið ykkur í sjóðandi heitt eintak. Einnig fær allur landinn á Íslandi frí í tilefni þessa merka atburðar, mér tókst ekki í tíma að fá frí fyrir alla vinnusjúka Ameríkana líka en kannski næst....

Til að gefa ykkur smá vísbendingu um hvað er í vændum þá mun svipaður atburður eiga sér stað í sumarbústað á Suðurlandi hjá einni íslenskri ljóshærðri snót....

En já semsagt eiginmaðurinn er að verða hálfsextugur eða 30 ára!!!!!

Unglambið sjálft sem flestir Ameríkanar halda að sé 19 ára og ég barnaræningi að giftast þessum unglingi (og ég sem er heilum 1217 dögum yngri eða unglambið í raun:)

Innilega til hamingju með afmælið elsku Hlynur og Lilja!

Knús Erna Sif

mánudagur, 28. apríl 2008

Niagara Falls og Toronto

Jæja þá er miklu ferðalagi lokið og við komin til Philly aftur. Eftir mikla keyrslu á föstudaginn þá komum við til Niagara Falls á fínt hótel sem var pantað á Howire (hvað annað...). Fórum strax að skoða fossana og urðum ekki fyrir vonbrigðum. Þvílíkir fossar og krafturinn í þeim er alveg ótrúlegur. Skoðuðum svo borgina og vorum mjög hissa að sjá öll ljósaskiltin og ferðamannaiðnaðinn í kringum fossana. Vorum semsagt bara á góðum tíma til þess að skoða þetta náttúruundur en það voru ekki svo margir ferðamenn á staðnum.
Á laugardaginn byrjuðum við svo á að skoða fossana aftur í annarri birtu og fórum svo til Toronto. Þar hittum við gamla vinkonu mömmu, Heather Ragnheiði, sem tók á móti okkur með veisluborði og gestrisni. Þessi kona er níræð og er ættuð frá Íslandi. Maren langamma var pennavinkona hennar í mörg ár og þegar hún hætti að geta skrifað þá skrifaði mamma bréfin eftir það og er búin að vera í sambandi við hana í um 15 ár.
Þessi heimsókn var alveg frábær og vel keyrslunnar virði.
Eftir það fórum við niðrí miðbæ Toronto og skoðuðum borgina. Fórum í siglingu, gengum um höfnina og fórum svo upp í CN Tower sem var þangað til í september á síðasta ári hæsta frístandandi bygging í heimi!
Gistum aftur í Niagara Falls um kvöldið og héldum svo af stað heim á leið í gær. Fórum scenic leiðina og gistum á leiðinni í The Endless Mountains.
Ætluðum svo að fara í göngu í dag en rigning setti strik í reikninginn. Fórum í staðinn í smá verslunarleiðangur og komum svo heim undir kvöld.

Frábær ferð í alla staði!

Kveðja

Hlynur, Erna Sif, mamma og pabbi

fimmtudagur, 24. apríl 2008

Kanada og Niagara Falls framundan!

Þá erum við Erna komin í smá frí og ætlum með mömmu og pabba í roadtrip á morgun.
Stefnan er tekin á Niagara Falls, sem eru fossar á landamærum USA og Kanada. Svo ætlum við að skreppa til Toronto þar sem mamma ætlar að heilsa upp á gamla vinkonu og svo skoðum við borgina eitthvað. Á sunnudag og mánudag ætlum við svo að skoða eitthvað á leiðinni heim.
Veðrið hefur verið frábært síðustu daga, of heitt ef eitthvað er fyrir mömmu og pabba en þau hafa nú alveg spjarað sig.
Mamma og pabbi hafa verið dugleg að skoða sig um meðan við Erna höfum verið að vinna. Í gær skoðuðu þau Valley Forge og Lancaster County þar sem Amish og Mennonítar búa og
svo hafa þau verið dugleg í fugla- og náttúruskoðun líka.

Já meðan ég man: Gleðilegt sumar!...hvað er eiginlega hitastigið heima...
Skoðiði endilega veðurpixíana hjá okkur (Árni og Lilja öfunda okkur ekki neitt af þessu en það er spurning með ykkur hin...)

Bless í bili

Kveðja

Hlynur og Erna Sif

mánudagur, 21. apríl 2008

Mamma og pabbi í heimsókn

Hæ allir saman

Jæja þá eru mamma og pabbi komin í heimsókn. Þau komu seinnipartinn á laugardaginn eftir að hafa verið í Boston í tvo daga.
Við fórum í rölt um campus svæðið á laugardagskvöldinu og svo var sunnudagurinn tekinn með trompi og túristast allan daginn. Við byrjuðum á að fara í frábæran garð sem heitir Chanticleer. Þetta er eiginlega bara yndisgarður þar sem mikið er lagt upp úr upplifun og andrúmslofti. Frábær garður og skemmtileg upplifun, náðum m.a. að sjá crabapples, gula magnólíu og einhver hengikirsi í blóma.
Eftir þetta fórum við til Chestnut Hill og fengum okkur brunch. Kíktum svo á Lauren Hill Gardens plöntusöluna og fórum svo í Morris Arboretum. Það er trjásafn University of Pennsylvania en þar sáum við kirsuberjatré í blóma og nokkrar nýjar tegundir af fuglum.
Í dag komu mamma og pabbi við í vinnunni hjá mér í The Main Line. Það er algjör paradísargarður þar sem við vinnum yfirleitt tvo daga í viku, ég og Rob. Mrs McLaen var himinlifandi að fá gesti í garðinn sinn og við eyddum alveg klukkutíma í að skoða garðinn og fuglana í kring. Sáum m.a. spætur ofl skemmtilegt.
Eftir það fór Rob vinnufélaginn minn með okkur í Fort Washington Park þar sem við sáum margar nýjar tegundir m.a. Bluebird sem er rosalega fallegur fugl.
Á morgun förum við svo til Cape May í New Jersey í fuglaskoðun.

Þannig að allt er í fullu fjöri hér og mjög gaman að hafa foreldrana í heimsókn.

Kveðja í bili

Hlynur

fimmtudagur, 17. apríl 2008

Farið að hitna í kolunum

Hæ allir saman.

Þá er farið að hitna aðeins í kolunum hjá okkur hérna. Hitinn í dag fór í 25°C og á að vera enn heitar á morgun.
Mér finnst svolítið erfitt að vinna í þessum hita en vinnufélagarnir segja: Bíddu bara.
Á sumrin er nefnilega oft 30+ og mikill raki, þannig að ég bíð bara spenntur eftir því.

Hér er lítið að frétta svosem. Vinnuvikan gengur bara sinn vanagang. Ég er orðinn einn af commuterum borgarinnar. Hitti sama fólkið á hverjum morgni í lestarkerfinu og allir eru farnir að chatta aðeins. Stundum þegar ég er á leiðinni heim með neðanjarðarlestinni þá hugsa ég með mér að ég gæti aldrei lifað svona í mörg ár. Það er eitthvað við að vera neðanjarðar, lyktin, hávaði í lestunum, ekki mjög hreinlegar stöðvar ofl. En ég er mjög heppinn að geta verið í náttúrunni allan liðlangan daginn sem vegur upp á móti borgarlífinu.

Mamma og pabbi eru komin til Boston, verða þar á morgun og keyra svo til okkar á laugardaginn. Það verður frábært að hafa þau í heimsókn. Svo það verður fjör í Philly næstu vikurnar við ýmsa náttúru- og fuglaskoðun og fleira skemmtilegt á dagskránni.
Svo vorum við að fá nýjar fréttir af gestakomu en Una Björk, Þröstur og Þorri eru að koma til okkar í júlí. Erum rosaglöð að fá þau í heimsókn:) Allt í gangi í Philly semsagt og ekki hægt að segja annað en að fjölskyldan sé að standa sig í heimsóknunum!

sunnudagur, 13. apríl 2008

Washington DC

Jæja þá erum við komin aftur heim eftir frábæra helgi í The Nation's Capital. Við tókum lest niður eftir og byrjuðum að ganga niður að safna og monument svæðinu. Þetta er ansi magnað svæði og ótrúlegur fjöldi safna. Svo var gaman að sjá Capitol, Hvíta Húsið, Washington Monument og Lincoln Monument.
Við gengum marga, marga kílómetra og fórum á Natural History Museum og American Indian Museum. Um kvöldið fórum við svo í aðeins líflegra hverfi sem heitir Georgetown. Þar var allt bullandi af lífi, fullt af veitingastöðum og búðum. Fengum okkur ekta indverskan mat og röltum um.
Í dag tókum við svo metro til Arlington Cemetary og sáum gröf John F. Kennedy og gröf óþekkta hermannsins. Þar sáum við athöfn þar sem var verið að skipta um krans á leiðinu. Mikill fjöldi manns var viðstaddur og eftir að búið var að skipta um krans þá spilaði Buglerinn (hornleikarinn) lag sem er alltaf spilað í bandarískum hermannaútförum (man ekki hvað það heitir). Fólk var með hendur í hjartastað og nokkrir táruðust. Þetta var ansi áhrifamikið og magnað að upplifa þetta.
Gengum svo yfir Potomac ánna og sáum Lincoln í sætinu sínu í Lincoln Memorial. Endurspeglunarlaugin var ansi flott og gaman að sjá Washington Memorial speglast þar.
Því miður voru flest kirsuberjatrén búin í blóma en við sáum Crabapples, Dogwoods og fleira í blóma í staðinn. Verðum bara að skreppa út að á hérna í Philly í vikunni og sjá Yoshino Kirsuberjatrén en það munar víst um viku á blómguninni hérna og í Washington.
Við enduðum svo daginn á Air and Space museum. Okkur fannst áhugaverðast að sjá allt geimbröltið þeirra og hvað þeir voru pirraðir á sínum tíma yfir því hvað Rússarnir voru á undan þeim í bransanum.
Helgin var frábær í alla staði, við gengum örugglega tugi kílómetra sáum óteljandi minnismerki og sáum margar hliðar á borginni sem kom okkur skemmtilega á óvart.
Setjum inn myndir fljótlega.

Kveðja

Hlynur og Erna

miðvikudagur, 9. apríl 2008

Cherry Blossoms

Þá er farið að hlýna aðeins og gróðurinn er að fara af stað. Við fórum í göngutúr meðfram Schuylkill ánni á mánudaginn en þar er mikið af Yoshino Cherry trjám en það eru sömu trén og eru í Washington DC.
Annars finnst mér magnólíutrén flottari ef eitthvað er heldur en kirsuberjatrén. Það er geggjað að sjá þessi stóru tré algjörlega þakin blómum sem líta út eins og túlípanar. Þegar þessi blómgun er búin þá tekur Dogwoods við (hyrnar) og svo eru það Crabapples (villiepli) og svo lyngrósir og endalaust fleira. Já það er gaman að vera garðyrkjunörd að vori...

Því miður varð ekkert af fyrirhugaðri heimsókn Jan, Susanne og Otto en Jan komst að því daginn áður en að þau ætluðu í flugið að hann var búinn að týna vegabréfinu sínu. Sem betur fer var hægt að breyta flugmiðunum enda er hann á einhverjum sér díl með miða vegna vinnu sinnar hjá Airbus. Þau ætla að reyna að koma einhvern tíma seinna í staðinn.
Við ákváðum að skreppa bara til Washington í staðinn um næstu helgi. Tökum lest eldsnemma á laugardagsmorgun og komum aftur seint á sunnudagskvöld. Ég pantaði eðalhótel á snilldarsíðunni Hotwire.com en þar getur maður fengið ódýra gistingu á flottum hótelum. Maður fær ekki að vita hótelið fyrr en maður er búinn að bóka gistinguna og það kom í ljós að við verðum á 4* hóteli tvær blokkur frá Hvíta húsinu.
Svo er bara að vona að við náum í endann á Cherry Blossoms þarna niðurfrá en okkur hlakkar mikið til að sjá öll Smithsonian söfnin og garðana.

Vinnan hjá mér er frábær, góður vinnufélagi, skemmtileg vinna og mikil fjölbreytni.
Erna er að koma hinni rannsókninni af stað (þvílík hetja að vera með tvær stórar rannsóknir í einu!) en þar verða kæfisvefnssjúklingar rannsakaðir. Ég á fullt í fangi með að fylgjast með þessu öllu og skilja það í þokkabót en ég reyni eftir bestu getu.

sunnudagur, 6. apríl 2008

Jazz og skyr með rjóma!

Við fórum á jazz tónleika á föstudagskvöldið. Þar var mikil saxófónhetja á ferð, Joe Lovano. Þetta voru brilliant tónleikar, tveir trommarar fóru á kostum þar á meðal Fransisco Mela, kúbanskur trommari sem við sáum á Blue Note jazzklúbbnum í New York um daginn. Lovano var flottur á saxann og tók svo fram nýjan saxófón sem kallast The Aulochrome. Þetta eru tveir sópransaxófónar fastir saman! Jazzistar þurfa alltaf að vera að prófa eitthvað nýtt... Tjékkið á þessu myndbandi hérna:


Í gær fórum við í innflutningspartý hjá Rainu og Darshan. Þau voru að flytja í flott high rise í miðborginni. Þau eru með rooftop pool á 30 hæð, það verður stuð þar í sumar!


Eftir mikinn skort á íslenskum mat þá fórum við í Whole Foods í gær og keyptum okkur skyr! Íslenskt skyr.is og þvílík snilld, var búinn að gleyma því hvað skyr er gott. Keyptum líka ostinn Höfðingja og sáum fleiri íslenskar vörur eins og íslenskan þorsk og bleikju.
Í gær var veðrið mjög gott og við röltum um borgina. Fórum m.a. á Italian Market sem selur alls konar matvöru. Það var mikil stemming á þessum markaði en okkur leist ekkert sérlega vel á hreinlætisaðstöðuna þar, Reading Terminal Market er skemmtilegri að okkar mati.
Við erum búin að vera löt í dag. Ætluðum í göngu en það er frekar kalt í veðri og rigningarlegt.
Við erum ennþá að bíða eftir ekta vorveðri en samt sér maður blómstrandi tré út um allt.
Næst á dagskrá er svo heimsókn frá Þýskalandi, Jan, Susan og Otto. Þá er bara að dusta rykið af þýskunni og æfa sig aðeins...

Kveðja

Hlynur og Erna

þriðjudagur, 1. apríl 2008

Svefnsvipting!

Hér er fátt að frétta nema að það er mikið að gera!

Loksins kom að því að rannsóknirnar mínar fóru í gang hérna:) Þvílík gleði og léttir að þetta sé byrjað!

Fyrstu þátttakendurnir í svefnsviptingarrannsókninni (Sleep deprivation) minni voru semsé um helgina. Þeir sváfu tvær nætur fyrst, var haldið vakandi í 38 tíma og fengu svo aftur að sofa heila nótt. Við tókum blóð frá þeim á 4 tíma fresti allan tímann og testuðum hversu syfjaðir þeir voru á 2 tíma fresti alltaf þegar þeir voru vakandi svo þetta var ansi massívt protocol. Þegar þeim er haldið vakandi í 38 tímana þarf líka alltaf að vera starfsmaður viðstaddur til að passa að þeir sofni ekki...

Ég var orðin ansi leið á endalausri pappírsvinnu (skriffinnska.is) og veseni að koma þessu af stað en allt hérna er mun stærra í vöfum en meistaraverkefnið mitt heima. Ég gerði semsé flestallt protocolið sjálf heima en hér er hrúga af fólki sem hjálpar til sem er auðvitað frábært en þýðir líka að ég þarf að kenna hjúkkum, næringarfræðingi, study coordinator og öðru starfsfólki protocolið. Minns var því vaknaður klukkan sex alla morgna frá því á föstudaginn þar til í morgun til að kenna starfsfólkinu sem var að koma á vaktina. Sem betur fer tók annar sem vinnur með mér að sér kennslu kvöldstarfsfólkins því annars væri ég ansi lúin núna.

Svo byrjar næsta protocol með kæfisvefnssjúklingum í næstu viku svo allt er í gangi:)

Minns er svo líka að fara að verða alvöru sameindalíffræðingur loksins og er að fara að læra alls konar blóðúrvinnslu, mælingar á próteinum og öðrum sameindum og svona svo það er spurning hversu flink ég verð!

Annars er vorið loksins komið til að vera. Var rosagott veður í eftirmiðdaginn og við Hlynur sátum bara úti á bolnum í sólinni og borðuðum kvöldmatinn:)
Held að kallinn minn verði ansi svartur á næstu vikum!

Svo erum við að plana hiking á einhverju fuglasvæði hérna nálægt um helgina sem ætti að vera fjör og svo kemur bróðir minn og hans fjölskylda næsta mánudag í vikuheimsókn:)

Semsé stuð og fjör að venju í Philly!

Knús
Erna

laugardagur, 29. mars 2008

Jazztónleikar í stórborginni!

Þá er enn ein vinnuvikan búin og komin helgi. Sólin skín en það er ekkert sérlega hlýtt. Magnólíutrén eru alveg að fara að springa út og Forsythia og Dogwoods eru í blóma. Kirsuberjatrén ættu að fara að opna sig alveg í næstu viku.
Á fimmtudaginn plantaði ég stjúpum allan daginn í garðinn hjá The Godshals.
Á föstudaginn gerðum við vorhreingerningu á stórri lóð, skárum kanta á beðum og fylltum þau af kurli (mulch).
Svo komst ég að því að einn kúnni sem við þjónustum er leikari sem flestir kannast við en er ekkert mikið frægur kannski. Hann heitir David Morse http://www.imdb.com/name/nm0001556/bio
og hefur leikið í myndum eins og The Green Mile og lék eitthvað í House líka. Maður er bara að vinna fyrir ríka og fræga fólkið hérna!

Í gær fór ég á frábæra tónleika með Wayne Shorter, án efa frægasti núlifandi saxófónleikarinn. Þetta var mikil upplifun. Kappinn er 75 ára og hefur spilað með helstu jazzlegendum allra tíma eins og Miles Davis, Art Blakey and the Jazz Messengers, Horace Silver, Herbie Hancock, Maynard Ferguson ofl en hann tók við af John Coltrane í Miles Davis Quartet (það gætu ekki verið erfiðari fótspor að feta í). Svo var hann í jazzfunkrockpopheavymetalfusion hljómsveitinni Weather Report sem var hvað heitust á áttunda og níunda áratugnum (eru einhverjir farnir að geispa...).
Tónleikarnir voru frekar súrir á köflum. Upphitunarbandið var með frekar standard setup, lögin byrjuðu og enduðu og hver var með sitt sóló og svona en þegar legendið steig á svið með ungum köppum, Danilo Perez á píanó, John Patitucci á bassa og Brian Blade á trommur, þá byrjuðu þeir að spila og svo var bara mússíserað næsta einn og hálfan klukkutímann. Ég verð nú að segja það að þó þetta hafi verið brill að sjá Shorterinn þá þurfti alla athygli til að fylgjast með tónlistinni, á köflum var þetta orðið einum of súrrealískt. Enda var eitthvað af fólki sem þoldi ekki við allan tímann og fór að tínast út eftir klukkutíma. Þegar herlegheitin voru búin þá var mikið uppklapp og aukalagið sem þeir tóku var mjög flott og þá lét kallinn loksins almennilega í sér heyra. Maður getur ekki annað en dáðst að honum að vera þetta lengi á sviðinu en maður sá það líka að hann var frekar þreyttur eftir þetta.

Í dag er svo afslöppun fyrir mig en Erna tók sexuna í morgun og var mætt upp á spítala til að fylgjast með framkvæmdinni á rannsókninni hennar sem fór af stað í gær. Hún er aðallega að sjá til þess að allt sé framkvæmt rétt af hjúkrunarfræðingunum enda mikilvægt að allt sé rétt gert.

Jæja þá er að skella sér í skattframtalið góða.

Njótið helgarinnar og fáið ykkur íslenska pulsu fyrir mig...


Kveðja

Hlynur

þriðjudagur, 25. mars 2008

Tómlegt í kotinu

Þá er fjörið búið í bili, en Ásdís og co fóru í morgun. Það var hálf einmanalegt að koma heim í tóma íbúð. Það er búið að vera mikið fjör og gaman að hafa þau í heimsókn. Ég og Erna tókum okkur frí á föstudaginn og við fórum öll í Vatnadýrasafnið (Aquarium) í Camden. Safnið var mjög flott og mikið að sjá. Ólöf Svala klappaði hákarli (pínulitlum) og svo sáum við allar mögulegar gerðir af vatnadýrum frá kolkröbbum upp í flóðhesta. Sunna Kristín og Ólöf Svala fengu að koma með mér og Ernu í neðanjarðarlest sem var mikið sport. Á sunnudaginn fórum við á listasafnið sem var sæmilegt. Það voru nokkrar flottar Monet myndir og ein eða tvær Van Gogh en svo var ein ansi flott eftir Dali sem er eins súrrealísk og hægt er að ímynda sér. Kíkjið á hana.
http://en.wikipedia.org/wiki/Soft_Construction_with_Boiled_Beans_(Premonition_of_Civil_War)

Yngri helmingur hópsins hafði nú ekki mikla þolinmæði í safnaskoðun en safnið er svo stórt að maður þarf nokkrar ferðir til að skoða það.

Á sunnudaginn vorum við boðin í páskamat til vinkonu hennar Ásdísar í New Jersey. Ég og Erna fórum í blæjusportbílnum okkar Mazda miata (Phillycarshare) og við keyrðum út í sveit og fengum góðar móttökur, kalkún, fyllingu, pie og allt tilheyrandi. Þetta var reyndar Thanksgiving matur en hún vildi bara leyfa okkur að upplifa alvöru Thanksgiving dinner þó að það væru páskar. Maturinn var mjög góður og gaman að koma inn á alvöru amerískt heimili.
Við söknuðum nú páskaveisluhalda heima en við fengum þó páskaegg frá Ásdísi og co sem var gleðilegt.

Þegar ég pantaði Phillycarshare bíl fyrir þessa ferð þá var bara einn bíll á lausu og það var þessi Mazda sem við rétt komumst fyrir í. Það var mjög fyndið að sjá okkur í honum.
Reyni að setja myndir inn fljótlega.

Í gær fékk ég svo óvænta snemmbúna afmælisveislu! Stjáni eldaði flott pasta með pestó og kalkúni og svo var afmælissöngurinn sunginn hástöfum. Það er ekki ónýtt að fá amælisveislu rúmum mánuði fyrir sjálf afmælið.


Annars gengur lífið bara sinn vanagang hérna. Vorið lætur aðeins bíða eftir sér en kirsuberjatrén eru að byrja að blómgast og laukar eru komnir upp.
Ég er búinn að vera að vinna í mjög stórum garði í The Main Line sem er mjög fínt úthverfi. Í tvo daga er ég búinn að handklippa stór eplatré til þannig að það blómstri sem mest og gefi ávöxt. Þannig að það má eiginlega segja að ég hafi verið að vinna í aldingarði síðustu daga.
Annars er frábært að vinna þarna, maður kemst alveg frá borgarniðinum og það er kannski helst að maður sé að ærast af fuglasöng.
Bara í dag sá ég nokkrar nýjar tegundir sem ég hef ekki séð áður, Junco, Red bellied Woodpecker, Osprey, Song Sparrow, House Finch, Mockingbird og White Breasted Nuthatch. Síðasti fuglinn er mjög merkilegur en hann getur klifrað upp og niður tré hvort sem hann snýr upp eða niður en það eru fáir fuglar sem geta það (þetta er að verða smá nörralegt hérna en það er bara gaman að því...)

Bless í bili

Kveðja

Hlynur