þriðjudagur, 17. júní 2008

Gleðilega þjóðhátíð!

Til hamingju með daginn kæru landar.
Við gerðum nú ekkert sérstakt í tilefni dagsins en við sungum Hæ,hó jibbí jei áðan til að koma okkur aðeins í gírinn!

Hér er vinnuvikan komin á fullt. Hitastigið er búið að vera fullkomið fyrir vinnuna hjá mér, 25°C og ótrúlegt hvað dagarnir líða hratt. Það er svosem ekkert sérstakt í gangi í vinnunni, mánudagar og þriðjudagar eru skemmtilegastir. Þá förum við yfir í Main Line þar sem við erum í hverri viku. Það tekur rúman hálftíma að keyra þetta (já það er aðeins lengra að keyra milli hverfa hér en heima) og svo erum við bara að sjá um þennan glæsilega garð í rólegheitunum. Það er alveg magnað að sumir kúnnarnir okkar hafi tvo garðyrkjufræðinga í vinnu tvo daga vikunnar ellefu mánuði á ári! En garðurinn er eiginlega listigarður og nóg að gera. Eplatrén sem ég eyddi þremur dögum í að klippa til í vor eru glæsileg núna og mikið af eplum að þroskast. Eitt af því sem er frábært við að vinna þarna er að maður er alveg kominn eiginlega út í náttúruna, allt er skógi vaxið og mikið af fuglum og dýralífi.
Hér er mynd af mér við eitt tréð í garðinum, Umbrella Magnolia en laufblöðin geta orðið ansi stór eins og þið sjáið.



Við keyptum nýja Coldplay diskinn í dag og erum núna að hlusta, lofar góðu. Erum semsagt að undirbúa tónleikana með þeim sem verða seinnipart júlí hérna í Philly.

Vona að þið hafið átt góðan dag, virðist hafa verið gott veður aldrei þessu vant á þann seytjánda...


Kveðja

Hlynur

2 ummæli:

Asdis sagði...

Já til hamingju með daginn í gær! Í Kópavoginum var sól og volg gola, fínt veður fyrir þjóðhátíð. Í gærkvöld var ég á unglingavaktinni: Ólöf Svala fékk að vera á tónleikum Buffs og Eurobandsins á Rútstúni fram eftir kvöldi og ég fylgdist með úr öruggri fjarlægð. Frábærir tónleikar annars og mikið stuð í gömlum og nýjum Júróvisjónlögum.

Nafnlaus sagði...

Það var nú skítakuldi í Reykjavík og endaði með því að við flúðum í Kópavog - fínasta veður á Rútstúni ;-).
Ætli fíkjublöð Adams og Evu hafi verið svona stór??