miðvikudagur, 27. febrúar 2008

Skotland!

Ekki varð nú mikið úr snjókomunni sem kom á föstudaginn, nú er allur snjór farinn og maður sér vonandi fram á vorið á næstunni.
Ég fór á skíði á laugardaginn, Erna var ekki upplögð í heilan dag á skíðum þannig að ég skellti mér bara. Færið var mun betra en um daginn vegna snjókomunnar og við fengum líka gott veður. Ég var að skíða með fjórum öðrum strákum sem voru flestir mjög góðir og það tók virkilega á að halda í við þá niður brekkurnar. En það tókst og ég var orðinn ansi góður í lok dagsins. Daginn eftir var ég ansi stífur í fótunum, sérstaklega kálfunum! En þetta var mjög góður dagur.
Á sunnudaginn skelltum við okkur til Chestnut Hill og skoðuðum hverfið sem ég er að fara að vinna í. Þetta er mjög notarlegt hverfi og ég hlakka til að byrja.
Golfkennslunni er lokið í bili en við reynum að æfa okkur öðru hverju í golfherminum. Þetta voru bara fimm skipti og maður er rétt búinn að fá nasaþef af sveiflunni hvað þá öllum öðrum þáttum íþróttarinnar en vonandi getum við spilað golf hérna í kring í vor og sumar.
Á morgun förum við svo til Skotlands og þegar við komum aftur heim í næstu viku þá styttist í heimsókn frá Ásdísi og familí! Gaman gaman...

Kíkjið á þetta í tilefni golfkennslunnar og Skotlandsfarar:



Kveðja

Hlynur

föstudagur, 22. febrúar 2008

Snjór!

Í morgun vöknuðum við og sáum snjó út um gluggann. Þetta var bara ágætt magn af snjó svona kannski 5 cm eða svo.
Ég sá svo fréttirnar í sjónvarpinu áðan og það var mikið rætt um óveðrið sem væri í gangi. Ég leit út um gluggan og sá bara fínasta veður og nú þegar klukkan er að verða fimm þá er snjórinn að mestu leiti farinn aftur vegna rigningar. En ég held að það hafi allt farið í steik á hraðbrautunum og skólarnir sendu krakka heim á hádegi og fundur sem Erna ætlaði á í hádeginu á háskólasvæðinu var frestað vegna veðurs! Í staðinn þá röltum við saman í hádegismat í fínu veðri og fengum okkur frábæra crépe.

Nú er ég bara að bíða eftir að vinnan byrji en það styttist óðum í það.
Er búinn að liggja yfir bókum að kynna mér plöntunotkun hérna og það kom mér á óvart að mikið af sumarblómunum og fjölæringunum eru líka notaðir heima, þannig að ég er ekki alveg út að aka. Svo eru trén og runnarnir öllu fjölbreyttari en það verður bara gaman að læra eitthvað nýtt.

Hvað er málið með fréttirnar af þessum blessuðu bönkum okkar?
Maður er nú orðinn frekar þreyttur á þessu, skuldatryggingablabla, maður veit ekki einu sinni hvað þetta þýðir!
Spurning um að setja bara sparnaðinn undir koddann?

Annars held ég að þetta sé allt saman spurning um hvað fólk trúir og heldur og það er verið að mata fólk á einhverri tortryggni gagnvart bönkunum...

Ég vona allavega að þeir fari ekki að detta á höfuðið blessaðir!

Nóg af bulli í bili.

Kveðja

Hlynur

fimmtudagur, 21. febrúar 2008

Mexíkönsk gleði

Hæ allir

Einhildur systir mömmu lét mig fá uppskriftina sem hún og Ása gerðu fyrir brúðkaupið hjá mér og Hlyni. Þið sem voruð í brúðkaupinu ættuð að muna hversu gómsætur þessi réttur var:) Algjört nammigott ef þið viljið prófa að gera svona heima....

Mexíkanskur kjúklingur a la Eina

Hráefni:
ca 4 bringur (fer eftir því hvað eru margir í mat)
ostasósa (mexikönsk)
salsa sósa
rifinn ostur
1 poki doritos snakk osta
Krydd (mexikansk)

1. Kjúklingabringurnar skornar í bita, steiktar á pönnu og kryddaðar eftir smekk.
2. Doritos snakkið mulið í botninn á eldföstu móti.
3. Salsasósan sett yfir og ostasósan þar ofan á.
4. Kjúklingnum er svo dreift yfir ostasósuna.
5. Síðan er ostinum dreift yfir allt saman.
6. Bakað í ofni í ca 20-30 mín á 200°C hita.
7. Gott að hafa sýrðan rjóma, Quacomole ,ostasósu, salat og hrísgrjón með.

Verði ykkur að góðu :)

Knús Erna

þriðjudagur, 19. febrúar 2008

Kominn með vinnu

Jæja þá er kallinn kominn með vinnu.
Það er búið að rigna yfir mig atvinnutilboðunum síðustu daga. Í gær hringdi síminn og ég mundi ekki einu sinni eftir að hafa sótt um á þeim stað. En ég er búinn að vega og meta þetta allt saman og ákvað að taka vinnunni í Laurel Hill Gardens. Þetta er fyrirtæki í Chestnut Hill sem er bæði með plöntusölu og skrúðgarðyrkju. Ég held að ég eigi að vera ca tvo daga í viku í sölu og svo hina dagana verð ég í skrúðgarðyrkjunni. Ég er mjög ánægður með þetta, held að það verði mikil reynsla að sjá hvernig þeir gera þetta hérna í Ameríkunni. Ég verð reyndar að vakna snemma og taka lest þangað og verð líklega ca 40 mínútur með öllu að koma mér þangað en ég held að það gæti verið verra.
Þessi vinna var reyndar næst okkur af öllum vinnunum sem ég gat valið um.
Ég byrja ekki fyrr en í byrjun mars þannig að nú er bara að njóta lífsins þangað til!!!

Við fórum á djammið um síðustu helgi með mjög amerísku fólki. Fórum á írskan pöbb og það var mikið fjör. Vinsælasti drykkurinn var Jägerbomba. Ekki fyrir viðkvæma!!!
Þetta er semsagt Red bull með skoti af Jagermeister. Maður setur glasið með jagernum ofaní red bull glasið og drekkur svo. Mæli nú ekkert sérstaklega með þessu enda var hausinn ekki upp á sitt besta daginn eftir...

Framundan er skíðaferð á laugardaginn og svo er farið að styttast í Skotlandsferð!
Erum að fara til Edinborgar í brúðkaup hjá Beggu og Chris sem verður haldið í skoskum kastala! Hlökkum mikið til...

Veðrið er búið að vera skrítið. Í gær fór hitinn upp í 20°C en í dag er hann nálægt frostmarki. Enginn snjór hefur enn sést og yfirleitt er bara sæmilegt veður.

Ég les mbl á hverjum degi til að fylgjast aðeins með heima og ég fékk vægt sjokk þegar ég sá hvað bensínið er farið að kosta.
Hérna kostar gallon (3.78 lítrar) um $3 og þykir frekar dýrt!
Annars fór ég á bílasýningu hérna í síðustu viku og það kom mér á óvart hvað er mikið til af hybrid bílum hérna.
Ætla að setja inn nokkrar myndir frá sýningunni núna.

En nóg í bili

Kveðja

Hlynur

laugardagur, 16. febrúar 2008

Helgin

Hæ allir saman.

Nú er komin helgi og veðrið er bara gott og erum við að vona að veturinn sé bara að verða búinn hérna (ef vetur skyldi kalla).
Ég er búinn að fá þrjú atvinnutilboð og er að vega og meta hvert og eitt. Ákveð líklega eftir helgi hverju ég tek. Annars byrja vinnurnar flestar ekki fyrr en í byrjun mars þannig að ég þarf að bíða í smá stund enn eftir því að fara að vinna. Maður er bara búinn að fitna á þessu letilífi, hahahaha...
Við erum búin að hafa nóg að gera, erum í golfkennslu á mánudögum og förum svo í salsakennslu tvisvar í viku. Golfkennslan fer fram í íþróttahúsinu á campus en þar er golfhermir þar sem að maður getur spilað á frægustu völlum heim! Ekki margir sem geta státað sig af því að hafa spilað St. Andrews!
Við vorum svo að kaupa okkur Bose dokku fyrir ipodinn þannig að núna hljómar músík um íbúðina.
Erum á leið í partý í kvöld en annars er ekki mikið í gangi um helgina.

Bæ í bili

Kveðja

Hlynur og Erna Sif

fimmtudagur, 14. febrúar 2008

Eimskipasjóðskind

Veiveivei!
Minns er semsé kominn með styrk til að vinna doktorsnámið...
Vildi bara deila með ykkur gleðinni:)

Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands - Úthlutun 2008

Berglind Eva Benediktsdóttir
Bergrún Arna Óladóttir
Björn Oddsson
Erna Sif Arnardóttir
Gabriel Malenfant
Helga Dögg Flosadóttir
Jón Á. Kalmansson
Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir
Kristín Björnsdóttir
Kristján Mímisson
Margrét Bessadóttir
Ragnhildur Guðmundsdóttir
Tobias Zingg
Þorgerður H. Þorvaldsdóttir

Knús Erna

mánudagur, 11. febrúar 2008

When in New York!

Þá er frábær og skemmtileg helgi í New York að baki.
Það var gaman að hitta Þröst, Guðbjörtu og Árna og njóta stórborgarinnar. Við komum með lest frá Philly á föstudagskvöldið og hittum íslendingana ásamt Ragnheiði vinkonu Guðbjartar á Bobby Vans Steakhouse.
Þetta var svo geggjað steikhús og maturinn var svo góður að maður er bara enn í skýjunum. Mig hefur alltaf langað til að prófa alvöru New York steikhús og draumurinn rættist þarna. Ég fékk mér 32 oz steik! Heil 900g og torgaði henni sem er náttúrulega fáránlegt! Hinir voru öllu rólegri og fengu sér flestir 16 oz steikur. Svo drukkum við frábært Pinot Noir með sem Þröstur valdi af vínlistanum eins og hann væri þaulvanur sommelier.
Eftir steikina fórum við upp í Rockafeller Center og nutum útsýnis yfir borgina.
Á laugardeginum skoðuðum við hverfið sem hótelið okkar var en það er kallað Flatiron district. Þar er helst að nefna Flatiron Building sem er ansi sérkennileg eins og straujárn í laginu og mjög mjó á köflum. Svo hittum við Þröst, Guðbjörtu og Árna á Time Square í kaffi. Fórum eftir það niðrí Soho að skoða í búðir og rölta um það skemmtilega hverfi. Gengum svo niður að Ground Zero og sáum að lítið gengur með framkvæmdir þar. Svo var komið að stærstu búð í heiminum, Macy´s! Það er algjört brjálæði að vera þarna inni. Búðin er á 9 eða 10 hæðum með óteljandi rúllustigum og lyftum. En það var upplifun að fara þarna inn og gott að vita það að maður þarf líklega aldrei að fara þarna inn aftur! HAHAHAHAHAHA...
Svo fórum við niðrí Greenwich Village og fengum okkur ekta pizzu á pínulitlum stað.
Eftir það fórum ég og Erna á Blue Note jazz klúbbinn og hlustuðum á kúbanskan trommara, Francisco Mela með nokkrum vinum sínum spila. Það var magnað að fara á þennan fræga stað þar sem margir af frægustu jazzistum sögunnar hafa tekið upp plötur live. Tónleikarnir voru ágætir, en tónlistin hljóp frá því að vera súrrealísk yfir í standard jazz og yfir í kúban/afrískt sound sem var mjög flott. Ég verð þó að segja að saxófónleikarinn Mark Turner var frekar slappur. En upplifunin var skemmtileg og klúbburinn pínulítill, troðfullur og fólkið sem við sátum á borði með var mjög skemmtilegt. Annað markvert sem gerðist á þessum klúbbi var að ég prófaði New York bjór í fyrsta skipti, Brooklyn Lager, og ég ætla aldrei að smakka þann viðbjóð aftur. Eftir það drakk ég bara Singha sem er mjög góður.
Á sunnudaginn hittum við Þröst á Olive Garden í smá lunch og kvöddum hann, fórum svo í M&M world sem er smá klikkun og enduðum helgina á þremur klukkutímum í MOMA, Museum of Modern Art. Þetta safn var frábært og höfum við aldrei séð jafn mikið af frægum myndum á einu safni.
Þannig að helgin var mjög skemmtileg, hressandi og gaman að hitta Þröst og co!

Nóg í bili

Kveðja

Hlynur

fimmtudagur, 7. febrúar 2008

Atvinnuviðtöl

Góðan daginn gott fólk!

Takk fyrir skemmtilega umræðu í kommentunum undanfarið. Alltaf gaman að fá komment...

Jæja hér hefur allt verið að gerast í vikunni. Ég fór í atvinnuviðtal á þriðjudaginn í eitt úthverfi borgarinnar, Chestnut Hill. Þar búa allir bubbarnir í fínu villunum sínum og allt er mjög vinarlegt og kósí. Mér leist mjög vel á fyrirtækið sem er bæði með garðplöntusölu og skrúðgarðyrkjuþjónustu. Þetta er lítið fyrirtæki og andrúmsloftið var mjög vinarlegt. Ég fékk mjög góða tilfinningu fyrir fólkinu og staðnum og nú er ég bara að bíða eftir símtali hvað verður úr þessu. Hér er heimasíðan hjá þessu fyrirtæki:
http://www.laurelhillgardens.com/

Svo fór ég í annað atvinnuviðtal í gær. Þetta fyrirtæki sérhæfir sig í kerjum og körfum sem eru alls staðar í miðborginni. Vinnan myndi felast í því að ég væri á stórum Ford pickup að vökva, bera áburð og klippa til plönturnar í kerjunum. Mér leist nú ekki eins vel á þetta starf eins og hitt en hef það kannski í bakhöndinni. Ég fór í prufukeyrslu niðrí bæ þar sem ég keyrði stóran pickup, held að hann heiti eitthvað Ford 250 heavy duty eða super duty. En alla veganna þá tókst mér að keyra þröngar götur og leggja í lítil bílastæði og fékk comment frá eigandanum eins og superb driving ofl.
http://www.finegardencreations.com/

Svo eru fleiri garðar heitir og hef ég heyrt að einn sé alveg magnaður. Ég hef verið í email sambandi við yfirmann en á að eiga símafund á næstunni.
http://www.chanticleergarden.org/

Svo sendi ég cv til Morris Arboretum en það er trjásafn sem University of Pennsylvania er með í hæðunum rétt fyrir utan borgina. Samgöngurnar þangað eru ekki sérlega hagstæðar en ég ákvað að senda umsókn þangað líka og ég fékk fín viðbrög að vísu voru engin störf í boði akkúrat núna en kannski þegar nær dregur vori. En directorinn vildi endilega fá mig sem fyrst uppeftir að hitta starfsfólkið og vill að ég haldi fyrirlestur í garðinum.
Það er mjög spennandi!

Á morgun förum við svo til Stóra Eplisins (New York), hittum Þröst, Guðbjörtu systur hans og Árna manninn hennar ásamt einhverjum fleiri íslendingum, það verður geggjað!

Veðrið er búið að vera skrítið hérna. Í gær fór hitinn upp í 20°C en það er aðeins búið að kólna í dag.
Biðjum að heilsa heim í snjóinn og veturinn, hehehe

Kveðja

Hlynur og Erna Sif

mánudagur, 4. febrúar 2008

Superbowl

Jæja þá er enn ein helgin liðin.
Við gerðum margt skemmtilegt. Á laugardaginn fórum við í King of Prussia mall að reyna að kaupa gallabuxur handa mér en það gekk illa. Hef ekki fundið neins staðar gallabuxur sem eru nógu síðar fyrir mig. Talandi um að allt sé til í Bandaríkjunum...
Fengum okkur lunch á Cheesecake Factory sem er svona alvöru amerískur veitingastaður í fínni kantinum. Ég fékk mér íslenskan þorks, fish and chips og Erna fékk sér risa samloku. Fiskurinn var mjög góður og ég spurði hann (fiskinn...) hvort hann væri ekki alveg örugglega frá Íslandi en fékk lítið um svör. Skammtarnir voru risastórir og náðum við ekki að klára matinn og það sem verst var að við vorum of södd til að fá okkur ostaköku. Það verður bara að bíða þangað til næst. Kíkjið á matseðilinn, hann er huge!
http://www.thecheesecakefactory.com/
Svo var komið að matarboði hjá Allan yfirmanni hennar Ernu um kvöldið. Það var margt um manninn og góður matur m.a. nýsjálenskt lambakjöt og innbakað nautakjöt. Það var mjög gaman að fara í heimsókn til Allans og Fran og sjá alvöru úthverfi. Við fengum far með vinnufélaga hennar Ernu og eftir ca. 40 mín akstur þá vorum við komin í úthverfi með engum blokkum og við sáum meira að segja stjörnur í fyrsta skipti í langan tíma.
Í gær vorum við svo boðin í superbowl gleði hjá Darshan og Rainu. Þar fengum við pizzu, buffalo wings (geggjaðir!) og mikið af snakki og bjór. Við fylgdumst með leiknum og fengum skýringar í leiðinni frá Darshan hvað væri í gangi. Leikurinn var svaka fjörugur undir lokin og var þetta bara besta skemmtun.
Við fengum líka að vita að við værum boðin í brúðkaup hjá þeim í sumar. Þau eru bæði af inverskum uppruna og verður brúðkaupið að indverskum sið, eitthvað um 300 manns er boðið og hlökkum við mikið til. Brúðkaupið er í Colombus Ohio, sem er 8 tíma keyrsla svo við tökum líklega bara innanlandsflug í þetta.
Ég er að fara í atvinnuviðtal á morgun. Þetta fyrirtæki er með litla garden center í sætu úthverfi og svo eru þeir líka með skrúðgarðyrkjuþjónustu.
Vona að það komi eitthvað skemmtilegt út úr því.

Jæja nóg í bili

Kveðja

Hlynur og Erna Sif

föstudagur, 1. febrúar 2008

Salsa


Fórum í salsatíma í gær, advanced, nota bene!
Það gekk bara mjög vel en var erfitt á köflum. Kennarinn er strákur frá Líbanon sem við hittum í skíðaferðinni um síðustu helgi og hann var mjög góður að sýna okkur sporin og sérstaklega aðrar heyfingar sem íslendingarnir eru ansi stirðir í.
Fórum svo og fengum okkur geggjaðan kvöldmat á
http://www.newdecktavern.com/
þeir sem eru að koma í heimsókn geta byrjað að slefa yfir matseðlinum. Samlokurnar eru gómsætar!!!
Atvinnuleitin tók óvæntan kipp í gær. Ég var orðinn ansi þreyttur á því að sækja um á aðal atvinnusíðunum hérna á netinu því það kom lítið út úr því. Þannig að ég tók mig til og fann góða síðu:
http://www.greaterphiladelphiagardens.org/index.asp
Ég leitaði að görðum sem voru í samgöngufæri og dældi bara út emailum þó að það stæði á síðunum að það væru engin störf í boði.
Og svörunum fór að rigna yfir mig strax sama dag. Ég fer á mánudaginn að skoða einn stað og svo eru nokkrir aðrir búnir að sýna mér áhuga.
Þannig að nú kemur bara í ljós hvort ég fæ vinnu fljótlega...
Spennandi!
Við keyptum okkur loksins eitthvað til þess að hengja upp á vegg hérna og ef einhver getur hverjir eru listamennirnir þá er óvæntur glaðningur í boði...





Það er rigning núna aldrei þessu vant. Veðrið er búið að vera bara fínt. Enginn snjór, hiti um eða yfir frostmark og bjart allan daginn.
Það er svo gott að vakna í birtu þegar er vetur, það er eitt af því sem ég sakna ekki frá Íslandi.
Biðjum að heilsa öllum í vetrarríkinu heima.

Bæjó

Hlynur