laugardagur, 29. mars 2008

Jazztónleikar í stórborginni!

Þá er enn ein vinnuvikan búin og komin helgi. Sólin skín en það er ekkert sérlega hlýtt. Magnólíutrén eru alveg að fara að springa út og Forsythia og Dogwoods eru í blóma. Kirsuberjatrén ættu að fara að opna sig alveg í næstu viku.
Á fimmtudaginn plantaði ég stjúpum allan daginn í garðinn hjá The Godshals.
Á föstudaginn gerðum við vorhreingerningu á stórri lóð, skárum kanta á beðum og fylltum þau af kurli (mulch).
Svo komst ég að því að einn kúnni sem við þjónustum er leikari sem flestir kannast við en er ekkert mikið frægur kannski. Hann heitir David Morse http://www.imdb.com/name/nm0001556/bio
og hefur leikið í myndum eins og The Green Mile og lék eitthvað í House líka. Maður er bara að vinna fyrir ríka og fræga fólkið hérna!

Í gær fór ég á frábæra tónleika með Wayne Shorter, án efa frægasti núlifandi saxófónleikarinn. Þetta var mikil upplifun. Kappinn er 75 ára og hefur spilað með helstu jazzlegendum allra tíma eins og Miles Davis, Art Blakey and the Jazz Messengers, Horace Silver, Herbie Hancock, Maynard Ferguson ofl en hann tók við af John Coltrane í Miles Davis Quartet (það gætu ekki verið erfiðari fótspor að feta í). Svo var hann í jazzfunkrockpopheavymetalfusion hljómsveitinni Weather Report sem var hvað heitust á áttunda og níunda áratugnum (eru einhverjir farnir að geispa...).
Tónleikarnir voru frekar súrir á köflum. Upphitunarbandið var með frekar standard setup, lögin byrjuðu og enduðu og hver var með sitt sóló og svona en þegar legendið steig á svið með ungum köppum, Danilo Perez á píanó, John Patitucci á bassa og Brian Blade á trommur, þá byrjuðu þeir að spila og svo var bara mússíserað næsta einn og hálfan klukkutímann. Ég verð nú að segja það að þó þetta hafi verið brill að sjá Shorterinn þá þurfti alla athygli til að fylgjast með tónlistinni, á köflum var þetta orðið einum of súrrealískt. Enda var eitthvað af fólki sem þoldi ekki við allan tímann og fór að tínast út eftir klukkutíma. Þegar herlegheitin voru búin þá var mikið uppklapp og aukalagið sem þeir tóku var mjög flott og þá lét kallinn loksins almennilega í sér heyra. Maður getur ekki annað en dáðst að honum að vera þetta lengi á sviðinu en maður sá það líka að hann var frekar þreyttur eftir þetta.

Í dag er svo afslöppun fyrir mig en Erna tók sexuna í morgun og var mætt upp á spítala til að fylgjast með framkvæmdinni á rannsókninni hennar sem fór af stað í gær. Hún er aðallega að sjá til þess að allt sé framkvæmt rétt af hjúkrunarfræðingunum enda mikilvægt að allt sé rétt gert.

Jæja þá er að skella sér í skattframtalið góða.

Njótið helgarinnar og fáið ykkur íslenska pulsu fyrir mig...


Kveðja

Hlynur

þriðjudagur, 25. mars 2008

Tómlegt í kotinu

Þá er fjörið búið í bili, en Ásdís og co fóru í morgun. Það var hálf einmanalegt að koma heim í tóma íbúð. Það er búið að vera mikið fjör og gaman að hafa þau í heimsókn. Ég og Erna tókum okkur frí á föstudaginn og við fórum öll í Vatnadýrasafnið (Aquarium) í Camden. Safnið var mjög flott og mikið að sjá. Ólöf Svala klappaði hákarli (pínulitlum) og svo sáum við allar mögulegar gerðir af vatnadýrum frá kolkröbbum upp í flóðhesta. Sunna Kristín og Ólöf Svala fengu að koma með mér og Ernu í neðanjarðarlest sem var mikið sport. Á sunnudaginn fórum við á listasafnið sem var sæmilegt. Það voru nokkrar flottar Monet myndir og ein eða tvær Van Gogh en svo var ein ansi flott eftir Dali sem er eins súrrealísk og hægt er að ímynda sér. Kíkjið á hana.
http://en.wikipedia.org/wiki/Soft_Construction_with_Boiled_Beans_(Premonition_of_Civil_War)

Yngri helmingur hópsins hafði nú ekki mikla þolinmæði í safnaskoðun en safnið er svo stórt að maður þarf nokkrar ferðir til að skoða það.

Á sunnudaginn vorum við boðin í páskamat til vinkonu hennar Ásdísar í New Jersey. Ég og Erna fórum í blæjusportbílnum okkar Mazda miata (Phillycarshare) og við keyrðum út í sveit og fengum góðar móttökur, kalkún, fyllingu, pie og allt tilheyrandi. Þetta var reyndar Thanksgiving matur en hún vildi bara leyfa okkur að upplifa alvöru Thanksgiving dinner þó að það væru páskar. Maturinn var mjög góður og gaman að koma inn á alvöru amerískt heimili.
Við söknuðum nú páskaveisluhalda heima en við fengum þó páskaegg frá Ásdísi og co sem var gleðilegt.

Þegar ég pantaði Phillycarshare bíl fyrir þessa ferð þá var bara einn bíll á lausu og það var þessi Mazda sem við rétt komumst fyrir í. Það var mjög fyndið að sjá okkur í honum.
Reyni að setja myndir inn fljótlega.

Í gær fékk ég svo óvænta snemmbúna afmælisveislu! Stjáni eldaði flott pasta með pestó og kalkúni og svo var afmælissöngurinn sunginn hástöfum. Það er ekki ónýtt að fá amælisveislu rúmum mánuði fyrir sjálf afmælið.


Annars gengur lífið bara sinn vanagang hérna. Vorið lætur aðeins bíða eftir sér en kirsuberjatrén eru að byrja að blómgast og laukar eru komnir upp.
Ég er búinn að vera að vinna í mjög stórum garði í The Main Line sem er mjög fínt úthverfi. Í tvo daga er ég búinn að handklippa stór eplatré til þannig að það blómstri sem mest og gefi ávöxt. Þannig að það má eiginlega segja að ég hafi verið að vinna í aldingarði síðustu daga.
Annars er frábært að vinna þarna, maður kemst alveg frá borgarniðinum og það er kannski helst að maður sé að ærast af fuglasöng.
Bara í dag sá ég nokkrar nýjar tegundir sem ég hef ekki séð áður, Junco, Red bellied Woodpecker, Osprey, Song Sparrow, House Finch, Mockingbird og White Breasted Nuthatch. Síðasti fuglinn er mjög merkilegur en hann getur klifrað upp og niður tré hvort sem hann snýr upp eða niður en það eru fáir fuglar sem geta það (þetta er að verða smá nörralegt hérna en það er bara gaman að því...)

Bless í bili

Kveðja

Hlynur

fimmtudagur, 20. mars 2008

Vorið alveg að koma!

Já vorið er við þröskuldinn hjá okkur. Samt hefur verið frekar kalt í dag. Vinnan gengur bara glimrandi hjá mér og það er ansi mikið að gera hjá Ernu. En við ætlum að taka okkur frí á morgun og eiga þriggja daga helgi með gestunum okkar.
Við erum svo ánægð með að fá heimsókn og gaman að sjá Ólöfu Svölu og Sunnu Kristínu vera spenntar yfir öllum nýju hlutunum hérna. Fyrsta daginn þá fórum við í göngutúr og stelpurnar vildu endilega sjá íkorna. Það var ekki nema smá rölt hérna út á götu og þá sáum við fyrsta íkornann. Við stóðum þarna sex íslendingar og vorum að dást að kvikindinu og fólkið sem gekk fram hjá horfði á okkur eins og við værum búin að tapa glórunni! Íkornar eru nefnilega ekkert merkilegir finnst fólkinu hérna og flestum finnst þetta vera óværa enda kalla þeir íkorna rottur með loðið skott.
Ásdís og co fóru til Washington í gær og eru á leiðinni aftur núna. Á morgun erum við Erna í fríi og ætlum að skemmta okkur á langri helgi með gestunum okkar. Nota bene það er ekkert frí hérna í kringum páskana. Þannig að við þurftum bæði að biðja um frí í vinnunni.
Ásdís kom með páskaegg frá Íslandinu góða þannig að við fáum páskaegg á Páskadag.
Svo erum við líklega boðin í mjög síðbúna Thanksgiving máltíð í New Jersey á laugardaginn en þar býr kona sem Ásdís þekkir.
Gaman gaman í Ameríkunni.

Bestu kveðjur til allra

Hlynur og Erna Sif

sunnudagur, 16. mars 2008

Lake Tahoe og góðir gestir

Halló elskurnar mínar

Allt gott að frétta héðan frá Philly, erum með frábæra gesti í heimsókn og alveg yndislegt að fá alltaf knús góða nótt frá tveimur litlum snúllum á kvöldin:) Erum búin að sýna þeim aðeins af háskólasvæðinu og borginni og svo eru þau með pakkaða dagskrá alla vikuna og ætla að sjá dýragarðinn, fara í risamollið að versla, skreppa til Washington eina nótt og svo ætlum við öll saman í sædýrasafnið á föstudaginn, þar eru víst flóðhestar, risaskjaldbökur og fleira skemmtilegt:)

Ameríkanarnir eru samt frekar leiðinlegir og hafa ekkert frí yfir páskana en ég og Hlynur ætlum að taka okkur frí amk á föstudaginn til að leika meira við gestina...

Annars var ég víst búin að lofa smá skrifum frá Lake Tahoe. Ég fór semsé á svefnráðstefnu 2 dögum eftir að við komum heim frá Skotlandi, flaug yfir á vesturströndina og flugið var nota bene lengra en að fljúga til Íslands! Svona til að fólk geri sér grein fyrir stærðunum hérna. Var orðin hálfsteikt á öllum tímamismuninum verð ég að segja.

Ég var fyrst voðaspennt því ég hélt að ég væri að fara í sól og strönd í Californiu en annað kom á daginn því Lake Tahoe er eitt aðalskíðasvæði Bandaríkjamanna (Ólymíuleikarnir hafa t.d. verið haldnir þarna) í 2000 metra hæð.
En mín skellti sér í skíðakennslu, náði svo að renna mér nokkrum sinnum niður byrjendabrekkuna á símeiri hraða (ekki mjög hraðskreið samt) og fannst þetta mikið fjör. Fyrsta skiptið sem fór á skíði í 10 ár til mikillar undrunar hinna ráðstefnugesta sem héldu að allir Íslendingar séu miklir skíðamenn og allt á kafi heima í snjó. Mæli með hópskíðaferðum í Alpana næstu árin, þetta er snilld!

Ráðstefnan var skemmtilega skipulögð því þó prógrammið væri frá 8 á morgnanna til 9-10 á kvöldin þá var hlé í eftirmiðdaginn og tvisvar fengum við frí frá 11-5. Semsé skíðatími:) Skellti mér svo á gönguskíði einn daginn í klukkutíma á milli fyrirlestra sem var líka ansi gaman, fór bara ein án nokkurrar kennslu og gekk bara vonum framar. Síðasta daginn var svo farið í göngu á "snow shoes", svona snjóþrúgur sem er strappað á fótinn (íslenskan upp á sitt besta) og rölt með göngustafi. Held að þetta væri mjög hentugt í íslenskar vetrargöngur og tölt upp á jökla því maður sekkur ekki jafnmikið ofan í snjóinn!

En já þetta var mikið fjör, gaman að fara upp í fjöllin, allt á kafi í snjó þarna upp og þar sem sást í jörð var bara eyðimerkursandur. Svo voru risagrenitré, furur og cidrustré upp um öll fjöll. Tók einhverjar myndir og smelli þeim inn í vikunni.

Knús og kossar frá Philly
Erna Sif

Takk fyrir bætinguna í commentum, miklu skemmtilegra að skrifa þegar maður fær feedback eins og að þið séuð orðin leið á gömlum færslum:)

fimmtudagur, 13. mars 2008

Hæ!

Jæja þá er Erna komin aftur heim mér til mikillar gleði. Var að veslast upp á því að borða bara ruslfæði í svona marga daga...hahahahaha (hljómar eins og ég kunni ekki einu sinni að sjóða pulsur!).
Vinnan gengur bara mjög vel. Síðustu daga höfum við verið að vinna á óðali í hverfi sem kallast The Main Line. Það eru svakalegar hallir þarna, ég hef aldrei séð neitt þessu líkt. Garðurinn sem við erum að vinna í er mjög stór með sundlaug, tveimur tjörnum og mikið af beðum. Þetta er eiginlega lítill grasagarður, mikið af plöntunum eru merktar sem er fínt fyrir mig því ég er að reyna að læra allar þessar tegundir. Það er góð tilbreyting að vinna út fyrir borgina, það er næstum því eins og maður sé út í skógi stundum og það er fullt af fuglum. Ég er m.a. búin að sjá Pileated Woodpecker, (Villa Spætu) og fleiri skemmtilega fugla.
Á sunnudaginn fór ég með Rainu og Darshan á tónleika með U2...ekki live en við fórum á 3D sýningu í Franklin Institute. Ég vissi ekkert hvernig þetta yðri áður en ég fór en þetta var rosa gaman. Ég er búinn að hvíla U2 hæfilega mikið síðustu árin og ég fílaði þetta alveg í botn. Tónleikarnir voru teknir upp í Buenos Aires og voru tugir þúsunda að horfa á. Stemmingin var mögnuð og 3D showið var bara flott og maður fékk alveg á tilfinninguna að maður væri á tónleikunum sjálfum!
Og loksins þegar maður hélt að öll frábæru lögin væru komin þá var alltaf eitt enn sem maður hafði gleymt, þvílík ógrynni af lögum sem þeir hafa gert vinsæl. Mér finnst þó alltaf eldri lögin skemmtilegust.
Það var líka athyglisvert að sjá Bono með sín pólitísku skilaboð. En maðurinn er bara algjör töffari það er bara ekki hægt að segja annað.
Við bíðum spennt eftir að fá Ásdísi og co í heimsókn á morgun, þá verður kátt í litlu íbúðinni:)

Ciao í bili

Kv.
Hlynur

P.s. Erna skrifar örugglega ferðasögu frá Lake Tahoe bráðlega.

laugardagur, 8. mars 2008

Afslöppun

Þá er kallinn byrjaður að vinna aftur. Mætti í vinnuna á miðvikudaginn og byrjaði á að vinna í sölunni að gera klárt fyrir tímabilið. Seldi nokkrar stjúpur og prímúlur, tók niður jólaseríur og hreinsaði til. Salan er á Germantown Ave sem er vinarleg gata og skemmtilegt andrúmsloft. Á fimmtudag og föstudag var ég að vinna í görðum, hreinsa til eftir veturinn, klippa til runna og taka niður jólaskreytingar í pottum. Mér líst bara vel á fólkið sem ég vinn með og lestarferðin gekk bara betur og fljótar fyrir sig en ég þorði að vona.
Erna fór til Lake Tahoe í California á ráðstefnu í gær og kemur aftur á miðvikudaginn. Held að hún ætli meira að segja að fara á skíði enda er hún í skíðaparadís!
Ég er bara í afslöppun, er að horfa á enska boltann núna, áfram Liverpool! Það er mikil rigning úti núna en vona að það stytti upp á morgun.
Það var nú vorilmur í loftinu á fimmtudaginn, þá vorum við staddir í garði með skóg í bakgarðinum og fuglarnir sungu hástöfum og sólin skein. En mars mánuður er víst frekar ófyrirsjáanlegur hvað veður varðar.
Við getum varla beðið eftir heimsókn frá Íslandi um næstu helgi og ég hef heyrt að það sé spenningur í gangi hjá sumum sem eru á leiðinni.

Til hamingju með afmælið Kristín síðasta miðvikudag.

Bless í bili

Kveðja

Hlynur

þriðjudagur, 4. mars 2008

Komin til Philly

Hæ elskurnar okkar!
Þá erum við komin aftur heim eftir frábæra ferð til Edinborgar. Ferðin gekk ágætlega fyrir sig en veðrið á föstudeginum var svosem ekki upp á marga fiska og við frekar lúin eftir nótt í flugvél. Á laugardaginn vorum við ansi dugleg að skoða borgina sem er ótrúlega falleg. Edinborgarkastali er upplifun út af fyrir sig, dominerar algjörlega yfir borginni og upplýstur á kvöldin. Borgin sjálf er svo með mjög sérstakt andrúmsloft, bara gömul flott steinhús, kastalar, hallir og kirkjur, allt upp á hæðum og auðvelt að ganga út um allt.
Alveg magnað:)

Svo kom að brúðkaupinu á sunnudeginum. Við fórum í Dundas kastala sem er rétt fyrir utan borgina og þar var sekkjapípuleikari sem tók á móti gestunum. Mjög gaman og gæti ekki verið meira skoskt. Svo var smá chatt við gestina áður en haldið var í gamlan hluta kastalans þar sem við gengum upp þröngan hringstiga upp þrjár hæðir þangað til við komum í pínulitla steinkapellu á efstu hæðinni. Gestirnir rétt komust fyrir en allir voru mjög nálægt og inn í athöfninni. Presturinn var mjög hress og skemmtilegur og sagðu nokkra brandara á mörkunum en það var mikið hlegið. Presturinn byrjaði meira að segja á því að segja nokkrar setningar á íslensku! Svo hafði hann líka kynnt sér forna giftingarsiði Íslendinga sem voru í skrítnari kantinum. En athöfnin var mjög falleg og skemmtileg, Begga var algjör prinsessa í rosaflottum kjól og Chris, báðir pabbarnir og tveir best men og fullt af karlkyns gestum voru glæsilegir í skotapilsum:) Veislan sjálf var svo mjög skemmtileg, maturinn góður, nóg af víni, ekki of mikið af ræðum og hljómsveit sem spilaði fram á nótt, getur maður beðið um eitthvað meira???

Svo á mánudeginum eftir að sofa til hádegis eftir fjör dagsins á undan þá fórum við aftur á röltið í borginni, fengum okkur kaffi á Elephant House þar sem J.K. Rowling skrifaði fyrstu Harry Potter bækurnar, skoðuðum Edinborgar háskólasvæðið og garða í kringum háskólann og kastalann, fullt komið í blóma strax sem var mjög gaman. Fórum líka í kirkjugarð sem er frægur fyrir hund sem heimsótti gröf eiganda sinns hvorki meira né minna en á hverjum degi í 10 ár og er stytta af hundinum aðalattractionið. Meira segja á gröf eigandans var kominn legsteinn þar sem eigandans er aðallega minnst fyrir hundkvikindið og við hliðina á er "vinur" hundsins. Ansi magnað að vera minnst bara í tengslum við hund...

Allavegna sorry fyrir allar sletturnar, íslenskuskrif ernunnar fara snarversnandi með dvölinni hérna, enskuskrifin verða betri á kostnað íslenskunnar sýnist mér...

Reynum að skella inn einhverjum myndum í dag eða á morgun.
Svo væri voðagaman að sjá hverjir eru að lesa þetta svo við værum mjög glöð að fá fleiri comment á skrifin:) Allar athugasemdir semsé vel þegnar!

Knús Erna Sif og Hlynur

Ps. Var ansi skrýtið að fljúga bara framhjá Íslandi en fara ekki heim, minns fékk smá heimþrá við að sjá klakann á flugkortinu...