þriðjudagur, 18. desember 2007

Atvinnuleyfi í höfn!

Góðir hálsar og aðrir líkamspartar!

Við erum semsagt komin til landsins eins og flestir vita.
Ferðin gekk áfallalaust fyrir sig og við sluppum við alla hlekki á JFK annað en
sumir íslendingar.
En aðalgleðifréttirnar eru þær að ég var að fá email um að atvinnuleyfið mitt væri samþykkt!
Þetta er mikill áfangi í hinu mikla skrifræði sem ríkir þarna úti.
Nú er bara að leita að vinnu...

Erum í jólafíling og mikið að gera enda ætlunin að reyna að hitta ykkur öll á næstu dögum.
Erum með íslensku símanúmerin og gistum uppi í Mosó hjá Krissu mömmu/tengdó!

Sjáumst

Kveðja

Hlynur og Erna Sif

föstudagur, 14. desember 2007

Óveður


Við sem vorum komin í fluggírinn í morgun þegar við vöknuðum...en nú virðist vera búið að fresta fluginu okkar heim. Vitum ekkert ennþá en það eiga að koma upplýsingar fljótlega.
Erna fór í vinnuna með ferðatöskuna og alles í morgun og ég er að ganga frá hérna í íbúðinni.
Ætluðum svo að taka lest til New York um eitt en vitum ekki ennþá hvort við eigum að fara strax eða bíða hérna.
Látum vita af okkur og vonandi komumst við heim sem fyrst.

Kveðja

Hlynur og Erna Sif

fimmtudagur, 13. desember 2007

Á heimleið

Hæ allir saman.

Nú styttist í að við komum heim. Töskurnar eru komnar á rúmið og pökkun hafin.
Vonandi er nóg fyrir okkur að taka bara sitthvora töskuna en lestarferðalagið á morgun til JFK flugvallar verður án efa mjög skemmtilegt... Lendum svo snemma á laugardagsmorgun á Íslandinu góða.

Hér er búið að vera fínasta veður en í dag er rigning og kuldi, held ég bara kaldara en á Ísland, svei mér þá!
Það kom jólasnjór hérna í tvo daga eða svo og svo hefur ekki sést meira af honum. Það verður áhugavert að sjá hversu mikill veturinn verður þegar við komum til baka í janúar.
Það er nú ekki mikið búið að vera í gangi hjá okkur nema jólastúss. Síðustu helgi fórum við í risamallið og náðum ekki einu sinni að klára að skoða það og á sunnudeginum fórum við hérna niðrí bæ og versluðum eitthvað. Hittum svo Rainu og Dursjan í brunch. Þetta er semsagt fólk sem við erum búin að kynnast í gegnum Bo, vinkonu hennar Jóhönnu, sem býr í NY.

Okkur finnst jólastemningin hérna ekkert vera svo mikil, en á ákveðnum stöðum er skreytt mikið en við höfum því miður ekki haft tækifæri að fara í úthverfin og skoða skreytingarnar þar. Jólahúsið í Ártúnsholti verður bara að vera nóg fyrir okkur þegar við komum heim.
Í vikunni skráðum við okkur í samtök sem heita Phillycarshare, www.phillycarshare.org. Þetta gerir okkur kleift að leigja bíla á vægu verði þegar við þurfum á því að halda hér í borginni. Þeir eru m.a. með blæjubjöllu sem er uppáhaldsbíllinn hennar Ernu!

Það sem er framundan eru svo jól á Íslandi, veiveivei og svo komum við aftur hérna 7.jan. Þá ætti ég að vera kominn með atvinnuleyfi og þá tekur við leit að vinnu og annað sem við kemur því eins og að sækja um social security number!
Erum svo búin að kaupa miða á amerískan fótboltaleik á risaleikvangi borgarinnar 9.jan og svo koma Bryndís og Haukur í heimsókn helgina 12.jan held ég. Þeim hlotnast sá heiður að heimsækja okkur fyrst allra!!!

En það verður gaman að hitta ykkur öll mjög fljótlega...

Kveðja

Hlynur og Erna Sif

mánudagur, 10. desember 2007

Smá kindakvörtunarblogg

Jæja löngu kominn tími á blogg frá kindinni...

Erum notabene að koma heim eftir örfáa daga, bara 5 dagar í okkur Erum voðaspennt að koma heim og hitta ykkur öllsömul...

Vildi segja ykkur frá síðustu vikum hérna í lífi frú Ernu:

Við hjónin fórum semsé til New York um Thanksgiving helgina, sem var alveg frábær ferð eins og Hlynur var búinn að skrifa um. Því miður endaði helgin samt á því að minns var kominn með flensu.
Var semsé heima í mikilli gleði mánudag og þriðjudag með hausinn fullan af hor og tilheyrandi skemmtilegumheitum. En á miðvikudaginn var friðurinn úti, var svosem orðin aðeins betri en kannski ekki beint til í að eyða 15 tímum í flug og tilheyrandi til að fara á ráðstefnu í Þýskalandi...

Fór snemma út á völl til að fá almennilegt sæti í vélinni, þ.e. við neyðarútgang svo maður geti aðeins teygt úr fótunum, ekki best í heimi að vera hávaxinn þegar maður þarf að fljúga! Allavegna, gaurinn sem var að tékka mig inn var voða ljúfur og sagðist láta mig fá neyðarútgang. Svo þegar ég kem inn í flugvélina þá er ég bara alls ekki með neinn neyðarútgang heldur sit við ganginn í því allra minnsta plássi sem ég hef setið í flugvél. Með hnéin boruð inn í sætið fyrir framan.
EKKI BÓKA LUFTHANSA!!!

Svo minns er nett pirraður (vægast sagt) og til að bæta ofan á þetta þá sit ég við hliðina á úkraínskum sjómanni í mikilli yfirvigt. Hallaði semsagt út á ganginn svo flugfreyjurnar voru í því að rekast í mig því úkraínski sjómaðurinn ekki bara tók allan sameiginlega arminn okkar heldur líka svona hálft sætið mitt. Svo talaði greyið maðurinn óskiljanlega ensku og var samt alltaf að reyna að halda uppi samræðum við hinu veiku, nett pirruðu mig.

Svona til að halda áfram með hryllingssöguna (já þig megið vorkenna mér takk:) þá var þetta flug 8 tímar og var til ca 2 um nóttina á US tíma. Svo átti að vera 2 tíma bið eftir klst innanlandsflugi innan Þýskalands sem var auðvitað seint. Semsé 3 tíma bið og 1klst flug. Loksins klst lestarferð til að komast á hótelið. Minns lagði semsé af stað að heiman um kl 2 um daginn og var komin á hótelið um 7 næsta morgun algjörlega svefnlaus.
Og þið sem þekkið mig vel vitið hvað svefn er mér mikilvægur...

Allavegna, gerði mér ekki grein fyrir því hvað ameríku-evrópuflug geta verið skemmtileg fyrir þessa mjög svo hressandi reynslu. Passaði mjög vel að ég og Hlynur finndum beint flug til Edinborgar í mars þegar förum í brúðkaup Beggu og Chris. Ætla ekki að lenda í þessarri gleði aftur...

Annars búið að vera nett brjálað að gera í vinnunni, mikið fjör og allt í gangi en svoldið stressandi á sama tíma. Svo voru allar jólagjafirnar keyptar um helgina í maraþon sessioni í King of Prussia. Eyddum 6 tímum í mollinu en náðum samt bara að rölta um circa helming. Mollið er tvískipt og ég hef aldrei farið í hinn helminginn, reyni að byrja þar næst!!!

En við sjáumst mjög svo bráðlega
Knús og kossar
Erna Sif (og Hlynur auðvitað)

fimmtudagur, 6. desember 2007

Veturinn er kominn

Jæja þá er veturinn kominn í Philly.
Það snjóaði hérna í fyrsta skipti í gær og svo kom aðeins meira í morgun. Þetta er nú bara smá föl og veðrið er búið að vera það gott í dag að snjórinn hefur að mestu bráðnað aftur.
Ég endurheimti Ernuna mína aftur eftir Þýskalandsdvöl í byrjun vikunnar og var það mikið gott. Ef hún hefði verið eitthvað mikið lengur þá hefði ég örugglega orðið veikur á öllum þessum skyndibita... Það er svo hrikalega ódýrt að fá sér nart hérna miðað við heima að það er varla fyndið!
Nú styttist í heimferð hjá okkur og erum við að verða ansi spennt. Þetta verður nú ansi strangt ferðalag því við fljúgum frá NY og þurfum fyrst að koma okkur þangað en hvað gerir maður ekki fyrir íslensk jól.
Komum heim 15.des og verðum alveg til 7.jan! Jibbý!!!
Ásdís systir sendi mér ansi skemmtilegan link og er þetta eitt besta jóladagatal sem ég hef séð. Bíð alltaf spenntur eftir nýjum degi eins og krakkar að opna súkkulaðidagatal. Mæli með þessu:

http://jonolafur.is/dagatal.html

Var að setja inn myndir frá svæðinu hérna í kring og svo nýju íbúðinni, loksins. Endilega að kíkja á það.

Bless í bili

Hlynski Karamba