sunnudagur, 29. júní 2008

Þá koma smá fréttir frá okkur hérna í Philly.
Tíminn líður ansi hratt hérna þessa dagana. Í gær fórum við til Cape May í strandargleði. Þetta er kósí lítill bær og ströndin er mun rólegri en í Wildwood þar sem við fórum síðast. Það er skemmtileg tilbreyting að fara á ströndina og gott að komast frá hitanum í borginni.



Í dag skelltum við okkur í Manayunk sem er úthverfi hérna í Philly. Við ætluðum bara að skoða hverfið og fá okkur brunch en svo var bara risastór markaður í tengslum við einhverja listahátíð í hverfinu. Við keyptum okkur ansi skemmtilega boli og skoðuðum endalausa bása með alls konar listmunum. Þessi markaður var mjög skemmtilegur og gaman að ramba svona á þetta. Hér er ég að smakka grillað svínakjöt eða eins og herferðin heitir: The other white meat.



Nú er bara stutt vinnuvika framundan, á fimmtudaginn fljúgum við til Columbus, Ohio í brúðkaup vina okkar hérna, Darshan og Rainu. Það verður mikið fjör, enda fjögurra daga veisluhöld að indverskum hætti.
Svo er náttúrulega 4. júlí framundan og það verður áhugavert að sjá hvernig kaninn heldur upp á það.

Er að setja nokkrar myndir úr vinnunni inn á flickrið, tjékkið á þessum villum!

þriðjudagur, 24. júní 2008

Íslandsför:)

Halló snúllurnar mínar

Vildi deila með ykkur gleðinni en minns er að koma heim í smá vinnuferð og heimsókn 1-10.ágúst:)

Hlakka ekkert smá til að koma aðeins heim og knúsa ykkur öllsömul...

Erna

sunnudagur, 22. júní 2008

Helgin í Philly

Þá er vinnuvikan framundan eftir skemmtilega helgi.
Eftir frekar tíðindalitla vinnuviku þá skelltum við okkur aðeins á djammið með Rainu og Darshan á föstudagskvöldið. Fórum á Dj kvöld þar sem var spiluð bangra tónlist ásamt öðru. Komumst að því að heyrnin okkar þoldi þetta ekkert svo vel, hávaðinn var þvílíkur ... Ætli maður sé bara ekki gamall?

Í gær keyrðum við norður fyrir borgina á Phillycarshare bílnum okkar. Það er nýbúið að bæta við bílum í nágrenninu og það er kominn einn Prius við húsið okkar sem er mikil gleði.



Við fórum í göngu sem heitir The Pinnacle. Við ákváðum fyrir helgina að reyna að fara í eina göngu enn meðan ekki væri orðið of heitt. Hitinn var þó um 30°C og svoldið heitt en þegar við komum upp á toppinn á "fjallinu" (frekar hóll að okkar mati) þá var aðeins kaldara. Útsýnið var frábært en við erum enn að venjast því að sjá bara útsýni yfir ræktað land og sveitir en byggðin hérna á austurströndinni er ansi þétt.
Hér er ein mynd úr göngunni.



Eftir gönguna skelltum við okkur í Cabelas búð sem var þarna rétt hjá. Veit að Svanur mágur og Kári svili öfunda okkur af því þegar þeir lesa þetta. En þvílík búð! Þetta er víst stærsta Cabelas búðin með 23.000m2 af gólfplássi. Komumst að því að þetta var ansi mikil redneck búð en það var magnað að sjá þetta. Heilu dýrahjarðirnar uppstoppaðar, allt frá fílum til ísbjarna (einu ísbirnirnir sem við fáum að sjá) og svona 5000 veiðistangir, byssur allt frá skammbyssum til hríðskotariffla (ágætis sjokk að sjá slíkt bara hríðskotariffla í búðarborðinu) og fleiri ótrúlegir hlutir http://en.wikipedia.org/wiki/Cabelas
Reyni að setja myndir af þessu fljótlega.

Í dag ákváðum við að hafa það notalegt og kíkja aðeins í bæinn. Það endaði með allsherjar verslunarferð! Byrjuðum að fara í Macy´s sem er algjör snilldarbúð með allt mögulegt til sölu. Fengum okkur svo Crepe á Reading Terminal Market. Svo gengum við Walnut Street til baka en það er helsta verslunargatan hérna. Þar voru H&M og Zara og fleiri búðir teknar í gegn. Ég var nú hálfgert burðardýr en fékk nú að versla mér smá...

Nú er maður bara að fylgjast með EM, var að horfa á Spán - Ítalíu. Þvílík snilld að sjá Spán fara áfram. Hef aldrei haldið með Ítalíu í fórbolta og gott að vera laus við þá úr keppninni.

Við erum farin að hlakka ansi mikið til að fá Unu Björk, Þröst og Þorra í heimsókn en það styttist í það, gaman, gaman...


Kveðja

Hlynur og Erna Sif

þriðjudagur, 17. júní 2008

Gleðilega þjóðhátíð!

Til hamingju með daginn kæru landar.
Við gerðum nú ekkert sérstakt í tilefni dagsins en við sungum Hæ,hó jibbí jei áðan til að koma okkur aðeins í gírinn!

Hér er vinnuvikan komin á fullt. Hitastigið er búið að vera fullkomið fyrir vinnuna hjá mér, 25°C og ótrúlegt hvað dagarnir líða hratt. Það er svosem ekkert sérstakt í gangi í vinnunni, mánudagar og þriðjudagar eru skemmtilegastir. Þá förum við yfir í Main Line þar sem við erum í hverri viku. Það tekur rúman hálftíma að keyra þetta (já það er aðeins lengra að keyra milli hverfa hér en heima) og svo erum við bara að sjá um þennan glæsilega garð í rólegheitunum. Það er alveg magnað að sumir kúnnarnir okkar hafi tvo garðyrkjufræðinga í vinnu tvo daga vikunnar ellefu mánuði á ári! En garðurinn er eiginlega listigarður og nóg að gera. Eplatrén sem ég eyddi þremur dögum í að klippa til í vor eru glæsileg núna og mikið af eplum að þroskast. Eitt af því sem er frábært við að vinna þarna er að maður er alveg kominn eiginlega út í náttúruna, allt er skógi vaxið og mikið af fuglum og dýralífi.
Hér er mynd af mér við eitt tréð í garðinum, Umbrella Magnolia en laufblöðin geta orðið ansi stór eins og þið sjáið.



Við keyptum nýja Coldplay diskinn í dag og erum núna að hlusta, lofar góðu. Erum semsagt að undirbúa tónleikana með þeim sem verða seinnipart júlí hérna í Philly.

Vona að þið hafið átt góðan dag, virðist hafa verið gott veður aldrei þessu vant á þann seytjánda...


Kveðja

Hlynur

laugardagur, 14. júní 2008

Strandargleði

Þá er erfið vinnuvika að baki. Ég fékk að kynnast því hvernig þetta verður í sumar, frekar heitt og mollulegt. En ég komst í gegnum þetta og ætti því að lifa sumarið af...

Ég er farinn að sjá alveg um erfiðasta kúnna fyrirtækisins (og einn stærsta) eftir að vinnufélagi minn lenti eitthvað upp á kant við hana. Það er frekar stressandi en ég hef náð að láta allt ganga upp hingað til. Joe, eigandi fyrirtækisins, virðist vera ansi ánægður með Íslendinginn sinn og ég er sá eini sem hann kallar buddy!
Annars líður hver vinnuvika hratt fyrir sig og áður en maður veit af er komin helgi á ný.

Í dag keyrðum við á ströndina í Jersey, byrjuðum á að fara til Wildwood. Ströndin þar var mjög fín og lágum við eins og skötur þar í nokkra tíma. Gengum svo á boardwalkinu og sáum alveg nýja hlið á strandlífi. Það er ótrúlega mikið gert úr skemmtun og afþreyingu og stundum gengur þetta of langt. Þarna var semsagt allt frá mini golfi upp í þrjá skemmtigarða með tívolítækjum og einn vatnsrennibrautagarður. Þetta var allt frekar gamaldags eins og hápunktur staðarins væri liðinn. Eftir að hafa upplifað þetta þá keyrðum við til Cape May sem er syðst í Jersey og fórum aðeins á ströndina þar. Svo gengum við um bæinn sem er mjög kósí og gamaldags. Bærinn er frægur fyrir Viktorískan byggingarstíl og það var gaman að sjá öll litlu B&Bin sem eru þarna.
Okkur líkaði miklu betur við þennan stað en Wildwood og ekki spurning hvert við förum næst á ströndina.

Bless í bili

Hlynur og Erna Sif

þriðjudagur, 10. júní 2008

Kindablogg

Halló snúllurnar mínar

Víst löngu komin tími til að kindin láti heyra í sér hérna...

Allt gott að frétta af okkur í bráðnandi hitanum. Fannst þetta nú aðeins of mikill hiti þegar er komið í líkamshita og slatta raki með. En það er að kólna núna og hinu fullkoma hitastigi 30°C spáð á morgun.

Var með rannsókn um helgina, rannsóknirnar mínar eru loksins að komast almennilega í gang hérna og ég notaði helgina í að kenna nýju starfsfólki svo þetta rúlli vel í sumar. Er svo langt komin með tvær greinar til birtingar, eina úr mastersnáminu og aðra yfirlitsgrein um kæfisvefn svo ég er bara ansi sátt með vinnuna þessa dagana:)

Minns var svo að kaupa sér miða á Madonnutónleika í nóvember:) Hlynur harðneitaði að fara á svona stelputónleika svo ég og Raina ætlum að skella okkur saman. Er þvílíkt spennt þar sem ég hef verið Madonnu aðdáandi frá því að ég var lítil. Átti nota bene allar plöturnar hennar og spólurnar og var bara með Madonnuplaköt upp á vegg. Öfundaði alltaf eldri systir einnar vinkonu minnar sem átti Madonnu rúmföt! Veit svosem ekkert hvernig nýji geisladiskurinn hennar er en held að það sé alltaf gott show að fara á tónleika með henni.

Mæli með Sex and the City myndinni, fór á hana á sunnudaginn með Rainu (annar hlutur sem Hlynur var ekki spenntur fyrir enda algjör stelpumynd). Algjör snilldarmynd, ná alveg að gera alvöru plot en ekki bara einn langan þátt eins og ég var pínku hrædd um áður. Svo já bara brilliant stelpumynd!

Annars bíðum við bara spennt eftir strandarferð næstu helgi!!!

Knús
Erna

Ps. Árni við misstum því miður af Eurovision, það hefði verið gaman að sjá Ísland komast upp úr undanúrslitunum loksins og fá að vera með í alvöru keppninni...

Hvað er annars í gangi heima, jarðskjálftar, ísbirnir og bensínverð á leiðinni í 200kallinn????

laugardagur, 7. júní 2008

Hitabylgja í Philly

Það er vel heitt í dag hjá okkur, fór yfir 35°C og frekar mikill raki. Erna er með rannsókn í gangi alla helgina (sleep deprivation)og þurfti að mæta snemma en ég leigði mér Prius og skrapp í Tinicum að skoða fugla. Ég sá nokkra warblera, Orchard Oriole og fullt af öðrum fuglum. Þegar var komið að hádegi þá var farið að hlýna ískyggilega en ég ákvað að kíkja í Bartram´s Garden http://en.wikipedia.org/wiki/Bartram%27s_Garden
sem er einn elsti grasagarður Bandaríkjanna. Þetta var mjög lítill og kósí garður sem var skemmtilegt að skoða.

Hitinn var hins vegar að ná hámarki og ég fór og náði í Ernu upp á spítala og við keyrðum upp í Main Line og höfðum það notarlegt á kaffihúsi, skruppum í nokkrar búðir og fengum okkur heimagerðan ís á Ardmore´s Farmers Market.

Enduðum svo á að fara í Target og kaupa strandargræjur fyrir sumarið. Keyptum m.a. strandarstóla, risahandklæði ofl. Í þessum hita þá er ekkert annað en ströndin sem virkar!

Veðurspáin næstu daga er frekar svakaleg en það á að verða heitara en í dag og við skulum sjá hvernig gengur að vinna í svona hita á mánudaginn. Maður byrgir sig upp af vatni og makar á sig sólarvörn, settur derhúfuna á hausinn og reynir svo að finna skuggsæla staði hjá Mclains til þess að vinna.

Bið að heilsa í bili

Kveðja

Hlynur

þriðjudagur, 3. júní 2008

Fjör með Jan, Susanne og Otto

Hæ!

Þá eru Jan, Susanne og Otto farin heim. Eins og alltaf þegar við fáum gesti þá líður tíminn mjög hratt og fannst okkur eiginlega tíminn of fljótur að líða í þetta skiptið.
Þau voru mjög dugleg að skoða borgina í síðustu viku en um helgina leigðum við bíl og keyrðum í Chanticleer garðinn sem er alveg frábær garður fyrir alla aldurshópa. Fengum mikla rigningu og þrumur á okkur en það var allt í lagi því við fengum okkur bara sæti á veröndinni hjá aðalhúsinu þar sem voru fín húsgöng og skjól frá rigningunni. Þar borðuðum við hádegissnarl og heyrðist í konu sem sat rétt hjá: Those Europeans are so smart, bringing lunch! Eftir smá snarl og rólegheit þá hætti rigningin og við náðum að skoða garðinn betur.



Eftir þetta var haldið í risamollið, King of Prussia en Jan og Susanne vildu endilega reyna að versla sér eitthvað enda evran þeirra ansi sterk gagnvart dollar. Meðan þau fóru að versla þá vorum við Erna með Otto í skemmtilegum búðum eins og Disney Store og bangsabúðum en eftir rúman klukkutíma var hann búinn að fá nóg og vildi fá mömmu sína.

Á sunnudaginn var svo komið að strandardegi. Við höfðum ekki enn farið á ströndina í Jersey þannig að við vissum ekkert við hverju var að búast og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Ocean City var reyndar full af fólki en ströndin var mjög fín og brjáluð sól og hiti. Otto var alveg í essinu sínu og lék sér mikið en við hin gátum aðeins slakað á í sólinni.




Á mánudaginn fór svo Erna með þeim til New York í dagsferð sem heppnaðist mjög vel. Þau fóru á toppinn á Rockefeller Center, gengu um Soho, picnic í Central Park, fengu flott útsýni úr Staten Island ferjunni svo eitthvað sé nefnt. Jan og Susanne voru bæði agndofa yfir borginni og voru strax farin að plana næstu ferð í borgina.

En já núna er bara tómt í kotinu og við bíðum spennt eftir næstu gestum í júlí þegar Una Björk, Þröstur og Þorri koma í heimsókn.

Kveðja

Hlynur og Erna Sif