Þá er vinnuvikan framundan eftir skemmtilega helgi.
Eftir frekar tíðindalitla vinnuviku þá skelltum við okkur aðeins á djammið með Rainu og Darshan á föstudagskvöldið. Fórum á Dj kvöld þar sem var spiluð bangra tónlist ásamt öðru. Komumst að því að heyrnin okkar þoldi þetta ekkert svo vel, hávaðinn var þvílíkur ... Ætli maður sé bara ekki gamall?
Í gær keyrðum við norður fyrir borgina á Phillycarshare bílnum okkar. Það er nýbúið að bæta við bílum í nágrenninu og það er kominn einn Prius við húsið okkar sem er mikil gleði.
Við fórum í göngu sem heitir The Pinnacle. Við ákváðum fyrir helgina að reyna að fara í eina göngu enn meðan ekki væri orðið of heitt. Hitinn var þó um 30°C og svoldið heitt en þegar við komum upp á toppinn á "fjallinu" (frekar hóll að okkar mati) þá var aðeins kaldara. Útsýnið var frábært en við erum enn að venjast því að sjá bara útsýni yfir ræktað land og sveitir en byggðin hérna á austurströndinni er ansi þétt.
Hér er ein mynd úr göngunni.
Eftir gönguna skelltum við okkur í Cabelas búð sem var þarna rétt hjá. Veit að Svanur mágur og Kári svili öfunda okkur af því þegar þeir lesa þetta. En þvílík búð! Þetta er víst stærsta Cabelas búðin með 23.000m2 af gólfplássi. Komumst að því að þetta var ansi mikil redneck búð en það var magnað að sjá þetta. Heilu dýrahjarðirnar uppstoppaðar, allt frá fílum til ísbjarna (einu ísbirnirnir sem við fáum að sjá) og svona 5000 veiðistangir, byssur allt frá skammbyssum til hríðskotariffla (ágætis sjokk að sjá slíkt bara hríðskotariffla í búðarborðinu) og fleiri ótrúlegir hlutir http://en.wikipedia.org/wiki/Cabelas
Reyni að setja myndir af þessu fljótlega.
Í dag ákváðum við að hafa það notalegt og kíkja aðeins í bæinn. Það endaði með allsherjar verslunarferð! Byrjuðum að fara í Macy´s sem er algjör snilldarbúð með allt mögulegt til sölu. Fengum okkur svo Crepe á Reading Terminal Market. Svo gengum við Walnut Street til baka en það er helsta verslunargatan hérna. Þar voru H&M og Zara og fleiri búðir teknar í gegn. Ég var nú hálfgert burðardýr en fékk nú að versla mér smá...
Nú er maður bara að fylgjast með EM, var að horfa á Spán - Ítalíu. Þvílík snilld að sjá Spán fara áfram. Hef aldrei haldið með Ítalíu í fórbolta og gott að vera laus við þá úr keppninni.
Við erum farin að hlakka ansi mikið til að fá Unu Björk, Þröst og Þorra í heimsókn en það styttist í það, gaman, gaman...
Kveðja
Hlynur og Erna Sif
sunnudagur, 22. júní 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Við hlökkum líka mikið til og Þorri ræðir reglulega um flugvélar og útlönd með leikrænum tilþrifum (lendingar og flugtök með tilheyrandi hljóðum). Vonandi komumst við nú í einhverja létta göngu þó það verði heitt ;-).
Já sæll, Svanur er EKKERT abbó !! híhíhí.. eða þannig.
Það var alveg brjálæðislega gott veður hjá okkur um helgina.. held að það hafi alveg náð upp í 20 gráður. Og ég er farin að safna lit.. vúhú. orðin eins og sebrahestur núna. Allt að koma.
Lóa Sjöfn fór í skátana í morgun, ótrúlega spennandi. Smári Þór er að bíða eftir sumarfríinu, skilur ekkert af hverju það kemur ekki.
Knús og kreistur, Lilja og co
Skrifa ummæli